Náttúra Víða er mikið álag á náttúru vegna ágangs ferðamanna. Víðtæk náttúruvöktun auðveldar yfirsýn.
Náttúra Víða er mikið álag á náttúru vegna ágangs ferðamanna. Víðtæk náttúruvöktun auðveldar yfirsýn. — Morgunblaðið/Einar Falur
Sighvatur Bjarnason sighvaturb@mbl.is Áhrif ferðamanna á umhverfið geta verið mikil en erfitt getur reynst að hafa yfirsýn yfir ástand einstakra svæða.

Sighvatur Bjarnason

sighvaturb@mbl.is

Áhrif ferðamanna á umhverfið geta verið mikil en erfitt getur reynst að hafa yfirsýn yfir ástand einstakra svæða. Stóru verkefni hefur verið hleypt af stokkunum sem hefur það að markmiði að koma á fót skipulagðri náttúruvöktun hér á landi.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur yfirumsjón með verkefninu og segir Rannveig Anna Guicharnaud verkefnastjóri að það sé hið stærsta sinnar tegundar hingað til. Markmið verkefnisins eru að vakta náttúruverndarsvæði með tilliti til álags ferðamanna á náttúruna. Þar sé horft til fjölmargra þátta, s.s. áhrifa á jarðmyndanir, skemmda á gróðri, ástands göngustíga o.s.frv. Einnig sé horft til áhrifa á einstaka dýrastofna, s.s. seli, refi og fugla.

Víðtækt samstarf

Rannveig segir að frumkvæðið komi frá umhverfis- og auðlindaráðherra, en verkefnið sé samstarfsvettvangur allra náttúrustofa á landinu, auk þess sem þjóðgarðar og Umhverfisstofnun taki virkan þátt. Með víðtæku samstarfi megi þróa sameiginlega aðferðafræði sem auðveldar úrvinnslu og samanburð á gögnum, sem til standi að gera almenningi aðgengileg.

Verkefnið hófst í sumar og stendur yfir í þrjú ár, en Rannveig segir of snemmt að segja til um niðurstöður. Breiður hópur sérfræðinga mun hittast í haust og stilla saman strengi sína og móta ferlið frekar. Hún segir að vonir standi til að verkefnið muni mynda grunn að langtímavöktun sem nýst getur til langframastefnumótunar í umgengni við náttúruna.

Víða mikið álag

Rannveig nefnir að mörg viðkvæm svæði geti orði fyrir miklu áreiti ferðamanna á stuttum tíma. Mörg dæmi séu um að samfélagsmiðlar og erlendar ferðabækur hafi komið ákveðnum stöðum svo rækilega á kortið að ásókn fer nánast úr böndunum. Með skipulagðri vöktun sé hægt að meta ástand hratt og bregðast við fyrr á viðeigandi hátt.