Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Skipulagsstofnun hefur ákveðið að lagning Örlygshafnarvegar um Látravík í Vesturbyggð skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is Skipulagsstofnun hefur ákveðið að lagning Örlygshafnarvegar um Látravík í Vesturbyggð skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Þetta vekur nokkra athygli þar sem fyrirhugaður vegur liggur um verndarsvæði samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins og um svæði á náttúruminjaská (Breiðavík, Hvalátra og Keflavík). Þá eru fornleifar, sem njóta verndar, í innan við 100 metra fjarlægð frá framkvæmdasvæðinu.

Hægt er að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur til 14. september. Við mat á framkvæmdinni leitaði Skipulagsstofnun álits Náttúrufræðistofnunar, Umhverfisstofnunar, Minjastofnunar og Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða auk sveitarfélagsins Vesturbyggðar.

Liggur út að Látrabjargi

Um er að ræða vegarspotta, 1,75 km að lengd, fyrir ofan Hvallátra og er hann hluti vegar sem liggur út að Látrabjargi. Raskið verður bundið við 13 til 30 m breitt svæði á leiðinni.

Það er Vegagerðin sem annast mun framkvæmdina. Fram kemur í ákvörðun Skipulagsstofnunar að núverandi vegur sé að hluta til niðurgrafinn, mjór og beri ekki þá umferð sem um hann fari. Oft skapast vandamál í rigningu þar sem fljótt myndast djúpir pollar í veginum sem ógerlegt er að ræsa burt. Umferð hefur farið stigvaxandi um frístundasvæðið á Hvallátrum og við núverandi aðstæður á háannatíma hafa landeigendur talið allt að 500 bíla á dag sem þýðir um 1.000 bíla gegnumstreymisumferð.

Áætluð efnisþörf við vegagerðina er tæpir 34 þúsund rúmmetrar og mun efnið fást með skeringum. Teknir verða 52 þúsund rúmmetrar og mun umframefnið notað til að laga bratta fláa á núverandi Örlygshafnarvegi, í grennd við fyrirhugað framkvæmdasvæði. Allur frágangur verður í samræmi við verklag við framkvæmdir af þessu tagi og unninn í samráði við eftirlitsaðila Vegagerðarinnar, landeigendur og fulltrúa Umhverfisstofnunar.

Vegagerðin telur að nýi vegurinn muni hafa óveruleg áhrif á landslag, með tilliti til sérstöðu eða fágætis þess, en talsverð neikvæð áhrif á ásýnd svæðisins vegna skeringa meðfram vegi. Með góðri hönnun, frágangi og eftirliti með framkvæmdum verði hægt að draga verulega úr þessum áhrifum. Stuðlað verði að því að röskun á landi verði sem minnst og takmarkist fyrst og fremst við fyrirhugað framkvæmdasvæði.

Nokkur áhrif á fuglalíf

Náttúrufræðistofnun vann rannsókn á gróðurfari og fuglalífi á svæðinu í fyrrasumar. Rask vegna framkvæmdanna verður á 5 hektara svæði og liggur veglínan um óraskað og allvel gróið svæði. Bein áhrif verða að mestu á vistgerðir með lágt verndargildi en á 300 til 400 metra kafla fer hún yfir gróið svæði og þverar língresis- og vingulsvist (hátt verndargildi), grashólavist (hátt verndargildi) og hrossanálarvist, auk þess sem hún mun liggja nærri starungsmýrablettum (með mjög hátt verndargildi). Áhrifin verða staðbundin. Þá telur Náttúrufræðistofun að búsvæði mófugla muni óhjákvæmilega raskast og æskilegt sé að kortleggja betur varp innan svæðisins. Nýr vegur muni þó einnig hafa jákvæð áhrif þar sem hann dragi stórlega úr umferð í frístundabyggðinni og þar með hættunni á að ekið sé yfir kríuunga í varpi við veginn. Loks er nefnt að nýja veginum gæti fylgt slysahætta fyrir fugla og menn vegna ritubyggðar í Látrabjargi, en flughæð ritu er gjarnan einungis örfáa metra frá jörðu.

Minjastofnun hefur skoðað fornminjar á svæðinu og telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við framkvæmdina svo lengi sem fornminjar verði merktar á áberandi hátt og starfsmönnum við vegagerðina gert viðvart um staðsetningu þeirra.

Niðurstaða Skipulagsstofnunar er því sú sem fyrr segir, að framkvæmdin þurfi ekki að fara í umhverfismat.