Gylltur Þessi gyllti stöpull hefur einhverja merkingu, sem undir hverjum og einum er komið að túlka.
Gylltur Þessi gyllti stöpull hefur einhverja merkingu, sem undir hverjum og einum er komið að túlka. — Ljósmynd/Margrét Bjarnadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veronika Steinunn Magnúsdóttir veronika@mbl.

Veronika Steinunn Magnúsdóttir

veronika@mbl.is

„Í myndlist er hægt að tjá eitthvað sem er ekki hægt að útskýra nákvæmlega með orðum, og það er eitthvað mjög heillandi við það,“ segir Ingibjörg Sigurjónsdóttir myndlistarmaður um sumarsýningu Skaftfells sem er í hennar höndum og ber titilinn Mon ciel, mi cielo. Hvað ertu raumverulega að meina?

„Fyrri partur titilsins kemur frá leikfangi sem var það fyrsta sem ég keypti fyrir mína eigin peninga, peseta á Mæjorka. Þetta er plasteftirlíking af Hello Kitty, en á umbúðunum stóð Mon ciel, mi cielo. Það tengist við eitt lykilverk á sýningunni,“ segir Ingibjörg þegar blaðamaður spyr hana hvað hún sé eiginlega að meina með titlinum. „Seinni hlutinn [hvað ertu raunverulega að meina?] kemur út frá þessari stanslausu spurningu sem er alltaf tengd myndlistinni, listaverkum og því að kljást við tilveruna,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg sýnir eigin verk í formi teikninga, stafrænna prenta og skúlptúra, ásamt völdum verkum eftir listmálarann og leirlistamanninn Benedikt Guðmundsson (1907-1960), en Ingibjörg ólst upp innan um verk hans þar sem afkomendur hans voru nánir fjölskylduvinir.

„Ég ólst upp í kringum þessi verk því dóttir hans og fjölskylda bjuggu á efri hæðinni – þessi fjölskylda er öll mjög skapandi og það er nálgun þaðan sem hefur mótað mig mjög mikið,“ segir Ingibjörg. Benedikt var leirlistamaður, listmálari og menntaður kjötiðnaðarmaður sem vann ötullega að list sinni, gerði áræðin málverk og fíngerðar pastelteikningar.„Hann var mjög virkur í listinni og var í kreðsu með öðrum áhugamálurum, bílamálurum og svo atvinnumálurum eins og Gunnlaugi Scheving og Þorvaldi Skúlasyni. Verkin okkar eru eins ólík og verið getur en við eigum sameiginlegan flöt í trú á erindi listarinnar, þótt nálgun okkar sé alveg úr sitt hvorri áttinni,“ segir Ingibjörg.

Haldreipi fegurðarinnar

Verk Ingibjargar leitast við að snerta á grunnviðleitninni til listsköpunar og undirstöðu myndlistar, línu og myndbyggingu en eru um leið hluti af frásögn sem raðast saman úr brotum sem glittir í. Því til marks er til sýnis verk sem inniheldur ljósmynd eftir afa Ingibjargar, sem á sér fallega sögu. „Ég á ljósmynd sem afi minn tók þegar við vorum að byrja að átta okkur á því að hann væri langt leiddur af Alzheimer-sjúkdómnum. Hann var að missa tengninguna við raunveruleikann og staðreyndir en hann hafði einhverja beintengingu við fegurðina, þessi haldreipi sem við höfum,“ segir Ingibjörg og heldur áfram: „Þetta er ljósmynd sem hann tók þegar hann stóð alveg heillaður við gluggann í einhverri ítalskri leiguíbúð sem við vorum í. Hann tók aftur og aftur myndir af sólsetrinu og af skýjunum. Mér þóttu þessar myndir vera svo merkilegur vottur um þetta haldreipi fegurðarinnar. Þessi mynd hefur lengi verið mér hugleikin og lenti í einu verkinu sem var á sýningunni og á sinn þátt í að gefa sýningunni þennan titil, himinninn minn - mon ciel, mi cielo,“ segir hún.

Skúlptúrinn skýr í sinni tilvist

Á sýningunni er að finna skúlptúr, gylltan stöpul, sem er ætlað að kalla fram ákveðna tilfinningu. Hann samanstendur af skrifstofupappír í stærðinni A3, sem er síðan gylltur eftir á líkt og gert er með biblíur. „Síðan raða ég á hann vandlega völdum hlutum, sem eru ágætis dæmi um þessa ómerkilegu hluti sem ég vinn gjarnan með, sem búa yfir einhverri óuppgötvaðri merkingu,“ segir Ingibjörg. Ekkert skýrt svar sé við því hver merkingin sé, en á sama tíma sé það alveg ljóst. Eitthvað sem er óskýrt en skýrt um leið.

„Þetta er auðvitað ekki eitthvað sem maður á að vera að gera. Það er fáranlegt að eyða pening í að gylla skrifstofupappír en um leið þá verður þetta að vera svona. Það er líka það sem er spennandi; listin er oft ekki lógísk við fyrstu sýn en hún fylgir sínum eigin rökum. Eitthvað sem virðist fyrst ekki meika sens, meikar síðan sens,“ segir hún.