Alexander Kristjánsson alexander@mbl.

Alexander Kristjánsson

alexander@mbl.is

Útlit er fyrir að innanlandssmit kórónuveiru haldi áfram að greinast nær daglega út þennan mánuð og inn í fyrstu viku septembermánaðar, ef marka má nýja spá vísindamanna við Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítalann sem gefin var út í gær. Spáin nær til næstu þriggja vikna, eða til 4. september, en segir ekki til um þróunina þar eftir. Tekur spáin ekki til ytri þátta, heldur er einvörðungu horft til fjölda smita. Hafa aðgerðir stjórnvalda af þeim sökum engin áhrif á líkanið.

Líkaninu sem rannsóknarteymið hefur þróað er beitt á fyrirliggjandi gögn um veiruna til að reyna að meta þróun faraldursins. Sett eru fram nokkur spábil, sem gefa líkur á því að fjöldi nýrra tilfella verði innan tiltekinna marka. Þannig sýnir dekksta svæðið á grafinu hér til hliðar 50% spábil. Af því má ráða að hvern dag sem spálíkanið nær til eru yfir helmingslíkur á að hér greinist nýtt innanlandssmit, þótt þróunin sé niður á við.

Næstu daga er gert ráð fyrir að líklegast sé að fjöldi virkra smita á dag verði á bilinu 1-4. Í spánni er horft til annarrar bylgju faraldursins, sem miðað er við að hafi hafist 23. júlí þegar smit greindist innanlands í fyrsta sinn í þrjár vikur. Síðan þá hafa 128 smit greinst innanlands. Uppsafnaður fjöldi smita í annarri bylgju eftir þrjár vikur, þegar spánni sleppir, er líklegur til að vera um 150, en taldar eru 5% líkur á að fjöldinn fari yfir 300.