[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Magnús Tryggvason fæddist 15. ágúst 1940 í Reykjavík, nánar tiltekið að Laugavegi 42. Nokkru síðar fluttist fjölskylda hans að Hellusundi 7, en móðurafi hans, Magnús, keypti húsið ásamt sonum sínum og fjölskyldu Magnúsar yngri.

Magnús Tryggvason fæddist 15. ágúst 1940 í Reykjavík, nánar tiltekið að Laugavegi 42. Nokkru síðar fluttist fjölskylda hans að Hellusundi 7, en móðurafi hans, Magnús, keypti húsið ásamt sonum sínum og fjölskyldu Magnúsar yngri. Hellusund 7 var sannkallað fjölskylduhús á þremur hæðum með fimm íbúðum og bjó Magnús yngri ásamt fjölskyldu sinni á efstu hæð ásamt afa sínum Magnúsi og ömmu sinni Helgu. Þá bjuggu móðurbræður Magnúsar á miðhæðinni og sú neðsta var í útleigu. Í húsinu bjuggu mörg börn á öllum aldri, sextán þegar mest var, með tilheyrandi lífi og fjöri. Æskuslóðir Magnúsar voru því í Þingholtunum og þar bjuggu æskuvinirnir einnig. Það sem mótaði lífið fyrstu árin voru leikur og prakkarastrik, fótbolti, hjólatúrar og skautar á tjörninni.

Fyrstu skólaárin sótti Magnús tíma hjá Kristínu Ólafsdóttur á Bárugötunni, en gekk síðar í Landakotsskóla og nam þar til tólf ára aldurs. Þaðan lá leiðin í Miðbæjarskólann, en síðar stóðst Magnús inntökupróf í Verzlunarskóla Íslands sem þá var við Grundarstíg og útskrifaðist þaðan með verslunarpróf vorið 1959.

Við ellefu ára aldur fóru flestir æskuvinirnir í sveit, en Magnús fékk sumarstarf hjá fyrirtækinu Kjöt og Rengi sem þá var nýflutt í Kópavog. Samgöngur voru stopular á þessum árum og hjólaði Magnús alla daga til og frá vinnu. Vinnan fólst í því að súrsa hvalrengi og skera hvalkjöt til dreifingar í verslanir. Árið 1952 var fyrirtækið ORA svo stofnað af fjölskyldu Magnúsar og sameinað Kjöt og Rengi. Að lokinni skólagöngu árið 1959 var Magnús ráðinn í fullt starf þar, en faðir hans var þá forstjóri fyrirtækisins. Magnús hafði þá verið í sumarstarfi hjá fyrirtækinu allt frá árinu 1951.

„Það var mjög uppbyggjandi að starfa við fjölskyldufyrirtækið á þessum árum. Á þessum tíma stóðum við til dæmis í stækkun á byggingum og kaupum á nýjum vélbúnaði, en hann var af skornum skammti fyrstu árin. Oft þurfti líka að smíða ýmsa hluti til að halda vélakostinum gangandi. Fyrstu árin þurfti að vélrita verslunarbréf, pósta og bíða svo eftir svari, en síðan kom ritsíminn í góðar þarfir. Skeyti voru send í gegnum þá og síðar komu telefaxtækin til sögunnar. Allt bókhald þurfti að handskrifa og skila síðan til endurskoðenda,“ segir Magnús. „Fjölbreytileikinn í starfinu var hvetjandi og fjölskyldan vann hörðum höndum að uppbyggingunni, öll sem ein. Dagarnir og árin liðu fljótt,“ segir Magnús.

„Eftir andlát föður míns árið 1987 tók ég alfarið við rekstrinum og var forstjóri fyrirtækisins til ársins 2003 þegar fjölskyldan seldi sinn hlut í fyrirtækinu. Á þessum 50 árum kynntist ég fjölmörgu fólki, bæði sem vinnuveitandi og í öðrum störfum,“ segir Magnús. „Mannauðinn skal aldrei vanmeta því hann er mikilvægastur í öllum rekstri fyrirtækja. Ég hafði það ætíð að leiðarljósi við starf mitt og gafst það vel.

Á þessum tímamótum vil ég þakka öllu því góða starfsfólki og samstarfsmönnum sem ég hef unnið með í gegnum tíðina. Eins öllum þeim sem ég hef setið með í stjórnum í áranna rás,“ segir Magnús.

„Flestir Íslendingar þekkja nafnið ORA sem þýðir strönd á latínu og í hugum margra eru hinar hefðbundnu íslensku vörur meginhluti framleiðslunnar; grænar baunir, fiskbollur, síld og fleira. Færri vita að upp úr 1983 var tekin sú stefna að stækka fyrirtækið og hefja útflutning á grásleppu og loðnuhrognum í glösum ásamt fiskisúpum, þorskhrognum og krydduðum loðnuhrognum til sushi-gerðar. Kaupendur að þessum vörum voru í Bandaríkjunum, Frakklandi, Belgíu, Þýskalandi og Danmörku, auk Spánar. Eftir þessar breytingar var unnið við tvær framleiðslulínur allt árið um kring og velta fyrirtækisins jókst um helming,“ segir Magnús.

Samhliða störfum sínum hjá ORA hefur Magnús setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og félagasamtaka, m.a. hjá Sölustofnun lagmetis, Íslenskum markaði, Þróunarsjóði lagmetisiðnaðarins, Íslensku marfangi og Verslunarráði Íslands. Þá sat hann til margra ára í stjórn Félags íslenskra iðnrekenda og sem varaformaður síðasta kjörtímabilið, frá árinu 1992-1993.

Sumarið l977 byggðu Magnús og Guðrún kona hans sumarhús í Vaðnesi í Grímsnesi sem fékk nafnið Glaðheimar. Þar hefur fjölskyldan dvalið til lengri og skemmri tíma. „Glaðheimar eru unaðsreitur þar sem gott er að njóta efri áranna. Þar er vel gróið og mikil nánd við náttúruna,“ segir Magnús sem var einn stofnenda Hitaveitu Vaðness árið 1987 og formaður frá upphafi, allt þar til hún var sameinuð Orkubúi Vaðness árið 2009. Magnús var einnig í stjórn Hvítárbrautarveitu og er núverandi formaður. Þá hefur Magnús setið í ýmsum stjórnum tengdum áhugamálum og hugðarefnum sínum, til dæmis í Fróðá ehf., Þistlum og ýmsum öðrum veiðifélögum. Magnús gekk til liðs við Lionsklúbbinn Frey í Reykjavík árið l972 og hefur starfað í klúbbnum alla tíð síðan. Þar hefur hann gegnt stöðu formanns og gjaldkera og setið frá upphafi í fjáröflunar- og líknarnefnd klúbbsins. Í áranna rás hafa helstu áhugamál Magnúsar verið lax- og skotveiðar, ferðalög og golf hin síðari ár. Þá hefur fjölskyldan ávallt verið honum efst í huga og sumarhúsið í Vaðnesi.

Fjölskylda

Eiginkona Magnúsar er Guðrún Beck, húsmóðir, f. 8.7. 1941. Þau eru búsett í Reykjavík. Foreldrar hennar voru hjónin Eiríkur Beck, f. 17.11. 1918, d. 26.2. 1951, stýrimaður hjá Eimskipafélagi Íslands, síðast á Selfossi, og Rósbjörg Hulda Magnúsdóttir Beck, f. 22.7. 1919, d. 6.12. 1981, húsmóðir.

Synir Magnúsar og Guðrúnar eru 1) Tryggvi Magnússon, f. 16.11. 1963, viðskiptafræðingur, kvæntur Katrínu Rut Sigurðardóttur, f. 9.5. 1965, yfirlækni, en þau eru búsett í Bergen í Noregi. Þeirra börn eru Jónína Kristín Tryggvadóttir, f. 28.6. 1990, Magnús Karl Tryggvason, f. 5.7. 1995 og Mikael Freyr Tryggvason, f. 9.1. 2001. 2) Eiríkur Magnússon, f. 26.7. 1966, viðskiptafræðingur, kvæntur Hjördísi Unni Jónsdóttur, f. 31.7. 1965, starfsmanni Valitor. Þeirra börn eru Jón Birgir Eiríksson, f. 28.4. 1993, Guðrún Eiríksdóttir, f. 1.2. 1996 og Birna Kristín Eiríksdóttir, f. 4.8. 2000. 3) Magnús Magnússon, f. 11.8. 1975, viðskiptafræðingur, kvæntur Ásdísi Margréti Finnbogadóttur, f. 31.10. 1974, hjúkrunarfræðingi. Þeirra börn eru Finnbogi Óskar Magnússon, f. 14.5. 2002, Eiríkur Ísak Magnússon, f. 18.1. 2008 og Auður Hilda Magnúsdóttir, f. 3.9. 2009.

Systir Magnúsar er Anna Lovísa Tryggvadóttir, f. 19.4. 1947, meinatæknir, gift Heimi Sindrasyni, f. 24.12. 1944, tannlækni.

Foreldrar Magnúsar voru hjónin Kristín Magnúsdóttir, f. 17.6. 1912, d. 7.5. 1991, húsmóðir, og Tryggvi Jónsson, f. 14.9. 1914, d. 11.12. 1987, forstjóri.