Geir Ágústsson
Geir Ágústsson
Eftir Geir Ágústsson: "Fortíðin er góð vísbending um framtíðina. Hið opinbera lætur aldrei gott neyðarástand fara til spillis."

Nú líður að seinni helmingi ársins 2020 og því ekki úr vegi að byrja að spá fyrir um atburði ársins 2021. Það er hægur vandi því oft er fortíðin góð vísbending um framtíðina og úr nægu að moða þar.

Árið 2021 er kosningaár. Það þýðir að stjórnmálaflokkar munu keppast við að lofa kjósendum gulli og grænum skógum. Ríkisstjórnarflokkarnir munu að sjálfsögðu taka þátt í þeim leik. Skiljanlega. Kjósendur hafa ítrekað sýnt það og sannað að þeir verðlauna stjórnmálaflokka fyrir að lofa, og þá helst meiru en þeir geta nokkurn tímann staðið við, á kostnað skattgreiðenda. Það þarf að fara mörg ár aftur í tímann til að finna kosningasigur flokks sem lofaði því af fullri alvöru að lækka skatta svo einhverju nemi, greiða upp opinberar skuldir, vinda ofan af opinberri framfærslu, fækka opinberum starfsmönnum og draga úr ríkisafskiptum og -umsvifum. Munu kjósendur verðlauna slíkt í dag? Sennilega ekki.

Árið 2021 verður líka veiruár eins og það sem nú gengur yfir. Ofan á kórónuveiru á eftir að bætast við inflúensuveira, að ónefndum öllum kvefpestunum. Veiruárið 2021 verður samt ekki ár samstöðu og sáttar um að takmarkanir þurfi að gera til að minnka útbreiðslu og verja ákveðna þjóðfélagshópa. Nei, veiran verður orðin rammpólitísk og enginn skortur verður á nýjum hugmyndum til að umbylta samfélaginu í nafni hennar. Hið opinbera hefur sjaldan látið gott neyðarástand fara til spillis og upp munu spretta tillögur að alls kyns ríkisstofnunum og bólgnum útgjaldahugmyndum sem á yfirborðinu eiga að renna til veiruvarna en eru í raun bara hendur að grípa það sem þær geta á meðan almenningur situr skelkaður við sjónvarpsfréttirnar.

Árið 2021 verður svo að öllum líkindum kreppuár. Góðæri undanfarinna ára hefur verið vel nýtt til að halda uppi gríðarlegri skattheimtu til að byggja undir gríðarlega stórt opinbert bákn. Það mátti ekki skella á veira og hallarekstur ríkisins hljóp upp í þriggja stafa milljarðatölu, rétt eins og hendi væri veifað, og nákvæmlega ekkert svigrúm til að hækka skatta og borga þann reikning, né pólitískur vilji til að selja eigur upp í skuldir eins og venjulegt fólk gerir í hallæri. Sveitarfélögin hafa mörg hver heldur ekkert gert til að búa sig undir niðursveiflu. Menn geta auðvitað kennt veirunni um en almennt má segja að allar áætlanir hafi gert ráð fyrir endalausu góðæri, og engin áætlun B til staðar. Áfallið hefði hæglega getað verið gjóskugos, nýtt bankahrun, hrun bandaríska dollarans, léleg veiði eða tískubylgjubreytingar meðal ferðamanna, sem vildu allt í einu frekar fljúga til Istanbúl en Íslands. Með skatta í himinhæðum og skuldir upp fyrir háls, eftir blússandi góðæri undanfarinna ára, blasir því við að kreppuár sé fram undan.

Að þessu sögðu má því segja að árið 2021 verði fyrirsjáanlegt. Kjósendur munu kjósa þá sem lofa mestum ríkisafskiptum. Stjórnmálamenn og hið opinbera munu ekki láta veiruástandið fara til spillis og nota tækifærið til að taka yfir enn stærri hluta samfélagsins. Með skatta og víða skuldir í himinhæðum verður síðan ekkert andrými til að hleypa hagkerfinu af stað á ný.

En vonandi skjátlast mér, að öllu leyti.

Höfundur er verkfræðingur geirag@gmail.com

Höf.: Geir Ágústsson