Hlaup Það léttir lífið að taka á rás.
Hlaup Það léttir lífið að taka á rás. — Morgunblaðið/Ómar
Fólk sem verður fyrir alvarlegum áföllum eða glímir við sárar afleiðingar af þeim sökum er í meiri hættu en aðrir að þróa með sér líkamlega sjúkdóma.
Fólk sem verður fyrir alvarlegum áföllum eða glímir við sárar afleiðingar af þeim sökum er í meiri hættu en aðrir að þróa með sér líkamlega sjúkdóma. Þetta kemur fram í grein eftir Unni Valdimarsdóttur faraldsfræðing og prófessor í nýju tölublaði af Velferð – málgagni Hjartaheilla. Vitneskja um þetta er reyndar ekki alveg ný en nú liggja fyrir niðurstöður víðtækrar rannsóknar sem unnið hefur verið að í 20 ár á Íslandi og í Svíþjóð og þar kemur fyrrgreint skýrt í ljós. Unnur hefur tekið þátt í þessu rannsóknarstarfi og segir í grein sinni að fólk með áfallatengdar raskanir sé í 30% meiri hættu en aðrir að fá ýmsa sjálfsofnæmissjúkdóma og líkurnar á hjartasjúkdómum fólks í þessum hópi séu 30-60% meiri en annarra. Sömuleiðis séu helmingi meiri líkur á að fólk sem glímir við áfallaröskun fái til dæmis heilahimnubólgu og blóðsýkingar. Á hinn bóginn lítur út fyrir að hætta á illvígum sjúkdómum meðal fólks sem veikist andlega af áföllum sé ekki meiri en ella, sé réttri lyfjameðferð beitt. Þetta allt stendur þó til að rannska betur, meðal annars hvernig áföll geta þróað taugasjúkdómna og krabbamein, auk þess sem gera á erfðarannsóknir á breytileika heilsufars eftir áföll.