Vatn í uppistöðulóni Blöndu hefur flætt yfir stífluna og rennur í ána. Það staðfestir Sigurður Ingi Guðmundsson, formaður veiðifélags Blöndu og Svartár.

Vatn í uppistöðulóni Blöndu hefur flætt yfir stífluna og rennur í ána. Það staðfestir Sigurður Ingi Guðmundsson, formaður veiðifélags Blöndu og Svartár. Hann segir að við þessu hafi verið búist, enda vatnið í lóninu hækkað óvenjuhratt í júní og því vitað hvað í stefndi. Yfirfallið veldur því að vatnsborð árinnar hækkar og hún litast af jökulleir. Sigurður segir að við þessar aðstæður „þýði ekkert að veiða í henni“ og því sé sjálfhætt.

Yfirfallið er reglubundinn viðburður í lok sumars en þó getur brugðið til beggja vona að sögn Sigurðar og sum ár hafi menn sloppið með skrekkinn. Einnig geti fallið gengið til baka og áin orðið veiðanleg á ný, en það sé mjög háð tíðarfari og hitastigi í lofti. Hann segir að þar á bæ hafi menn leitað til Landsvirkjunar um að hleypt yrði úr botnlokum til að koma í veg fyrir eða seinka yfirfalli, en þrátt fyrir góðan skilning hafi þetta farið svona að lokum.

Vill frekar éta en sleppa

Aðspurður segir Sigurður að tímabilið hafi verið „hálfslappt og ekkert sérstakt“. Hann bendir á að hluta skýringa megi mögulega finna í því að nú sé eingöngu veitt á flugu, sem „kannski taki síður í jökulvatni“. Flugan sé þó tímanna tákn þar sem menn stundi að sleppa, þótt Sigurður segist heldur vilja „éta fiskinn“ eftir baráttuna.

Í Blöndu hafa 475 fiskar komið á land, þar af 65 undanfarna viku og því enn nokkuð í lokatölur síðasta árs. Það kemur saman við flesta staði, sem heldur virðast undir meðallagi þetta árið. Eystri-Rangá sker sig úr og leiðir með góðu forskoti. Þar hefur þegar verið landað rúmlega 4.500 sporðum, þar af 606 í síðustu viku. sighvaturb@mbl.is