Vinsældir Ýmsar snyrtivörur sem innihalda CBD fást nú í apótekum.
Vinsældir Ýmsar snyrtivörur sem innihalda CBD fást nú í apótekum.
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Það hefur margt gerst á þessum stutta tíma,“ segir Sigurður Hólmar Jóhannesson, formaður Hampfélagsins og framkvæmdastjóri Ozon ehf. sem flytur inn CBD-vörur.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það hefur margt gerst á þessum stutta tíma,“ segir Sigurður Hólmar Jóhannesson, formaður Hampfélagsins og framkvæmdastjóri Ozon ehf. sem flytur inn CBD-vörur. Tæpt ár er nú liðið síðan félagið var stofnað en í kjölfarið var Sigurður fyrstur til að hefja innflutning á snyrtivörum sem innihalda virka efnið CBD, sem unnið er úr hampi.

Nú er svo komið að umræddar snyrtivörur er að finna í fjölda verslana og apóteka. Um er að ræða varasalva, bólukrem, húð- og verkjakrem og sitthvað fleira, alls sautján vörur frá þremur framleiðendum. Sigurður er langt í frá eini innflytjandinn. Til að mynda greindi Viðskiptablaðið frá því í vikunni að vörur sem tónlistarmaðurinn Emmsjé Gauti flytur inn hafi selst upp á skömmum tíma.

„Þetta er að nálgast sextíu aðila sem selja vörur okkar, apótek og verslanir. Margir sem voru skeptískir í byrjun eru núna að taka trúna. Þeir verða vitaskuld spenntir þegar þeir sjá hvað viðskiptavinir eru ánægðir með vörurnar,“ segir Sigurður.

Hér á landi er CBD skilgreint sem innihaldsefni í lyfi og fellur því undir lyfjalög. Því er ekki leyfilegt að flytja efnið inn sem fæðubótarefni til einkanota. Tillaga þess efnis hefur verið lögð fram á Alþingi og kom Sigurður fyrir velferðarnefnd þingsins þegar málið var til umfjöllunar þar. Hann kveðst binda vonir við að breyting verði á næsta vetur. Það sé ekki seinna vænna því síminn stoppi ekki frá fólki sem er að leita að slíkum fæðubótarefnum. „Mér fannst jákvætt hljóðið í þeim í velferðarnefnd. Eina var að þeir virtust vilja hafa einhverja stjórn á því hvar þetta væri selt.“