Nýjung Örn Sigurðsson hjá Ísröri segir að mikill áhugi hafi verið á kælirörum fyrir bjór. 15 flöskur eru grafnar í jörðu og koma kaldar upp þegar hentar.
Nýjung Örn Sigurðsson hjá Ísröri segir að mikill áhugi hafi verið á kælirörum fyrir bjór. 15 flöskur eru grafnar í jörðu og koma kaldar upp þegar hentar. — Morgunblaðið/Eggert
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Viðtökurnar hafa verið gríðarlega góðar. Þetta er enda mikið þarfaþing,“ segir Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Ísrörs. Fyrirtækið hóf í vor að selja svokölluð kælirör fyrir bjór.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Viðtökurnar hafa verið gríðarlega góðar. Þetta er enda mikið þarfaþing,“ segir Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Ísrörs.

Fyrirtækið hóf í vor að selja svokölluð kælirör fyrir bjór. Um er að ræða rör sem grafið er ofan í jörðu og þegar þrýst er á einn takka skjótast upp fimmtán ískaldar flöskur af bjór. Tilvalið fyrir garðinn eða pallinn, að sögn Arnar.

„Við vorum að flytja inn veggþétta frá fyrirtæki í Þýskaland og það fyrirtæki bjó til þetta rör. Þetta mun vera þekkt aðferð þar í landi, rör er grafið í jörðu og svo er sett stöng ofan í það með pumpulyftu. Á þá stöng hengir þú 15 bjóra og kuldinn í jarðveginum kælir bjórinn. Hann er alltaf í kringum 6-7 gráður. Svo er lok yfir þessu til að hleypa rakanum út. Þetta er ekki flókið; þegar gestirnir koma þá kippir þú lokinu af og tekur snúning. Bjórarnir koma svo upp eins og fyrir töfra.“

Örn segir að Þjóðverjar hafi byrjað að nota þessa aðferð til að kæla bjór í sandinum í fjörum. „Svo er sagt. En svo höfum við reyndar líka heyrt að þeir hafi stolið hugmyndinni frá Dönunum.“

Hægt er að horfa á myndband sem sýnir hvernig rörið virkar á heimasíðu Ísrörs. Segir Örn að rörið kosti rétt um 33 þúsund krónur og það fáist keyrt heim að dyrum. Kaupendur geta fengið jarðvegsbor lánaðan til að koma rörinu niður, og kennslustund frá sérfræðingunum sjálfum ef á þarf að halda.

„Það hafa margir verið að hengja þetta neðan í pallana hjá sér eða við hliðina á pottinum. Það eru oft miklar pælingar um staðsetninguna. Svo hafa margar frúr gefið mönnum sínum rörið í afmælisgjöf.“