Fundur Aðgerðirnar voru kynntar á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar sem haldinn var í Safnahúsinu í gær.
Fundur Aðgerðirnar voru kynntar á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar sem haldinn var í Safnahúsinu í gær. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Aron Þórður Albertsson Jóhann Ólafsson Þorgerður Anna Gunnarsdóttir Ríkisstjórn Íslands tilkynnti í gær um hertar aðgerðir vegna útbreiðslu faraldurs kórónuveirunnar hér á landi. Frá og með 19.

Aron Þórður Albertsson

Jóhann Ólafsson

Þorgerður Anna Gunnarsdóttir

Ríkisstjórn Íslands tilkynnti í gær um hertar aðgerðir vegna útbreiðslu faraldurs kórónuveirunnar hér á landi. Frá og með 19. ágúst þurfa allir sem koma til Íslands að fara í skimun á landamærum. Þá verður sömu aðilum gert skylt að fara í fjögurra til sex daga sóttkví auk annarrar sýnatöku að henni lokinni. Þetta var meðal þess sem fram kom á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í Safnahúsinu í gær.

Um er að ræða innleiðingu reglna samkvæmt fimmtu tillögu Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, en hann hafði fyrr í vikunni lagt fram níu tillögur vegna aðgerða á landamærunum. Hefur ákvörðunin í för með sér að farþegar frá „öruggum svæðum“, sem fram til þessa hafa sloppið við skimun, þurfa að undirgangast sama ferli og aðrir. Það sama mun gilda um einstaklinga sem ætla að dvelja í yfir tíu daga hér á landi. Áður fóru þeir í svokallaða heimkomusmitgát sem fylgt var eftir með annarri sýnatöku eftir fjögurra til sex daga dvöl. Verður heimkomusmitgát því lögð niður.

Gjald verður tekið fyrir sýnatöku á landamærum eins og verið hefur hingað til. Seinni sýnataka verður áfram að kostnaðarlausu.

Lífið verði eðlilegt að nýju

„Þegar við lögðumst yfir þá valkosti sem sóttvarnalæknir lagði til okkar, þá í raun beittum við bara þeirri aðferð að útiloka suma þeirra og aðra tókum við til nánari skoðunar. Því meira sem við lágum yfir þessu, ekki bara út frá sóttvarnasjónarmiðum heldur líka hagrænum og samfélagslegum sjónarmiðum þá var niðurstaða okkar sú að það væri skynsamlegast að grípa inn í tiltölulega fast og geta þá slakað á síðar,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

Segir hún að horft hafi verið til þess að hægt verði að lifa eins eðlilegu lífi innanlands og kostur er. Þá hafi innanlandssmit síðustu vikna vegið þungt.

„Rökin eru tvenns konar, í fyrsta lagi auðvitað þessi innanlandssmit, en það eru ekki þau ein og sér sem ráða þessari ákvörðun heldur í raun og veru þessi þróun sem við sjáum bara alls staðar í kringum okkur. Við erum með faraldur í vexti og það eru auðvitað stærstu rökin. Hugsunin er líka sú auðvitað að við getum slakað á takmörkunum hér innanlands, með það leiðarljós ávallt að samfélagið geti gengið áfram. Þar erum við að hugsa um skólana, íþróttirnar, menninguna og bara allt sem okkur finnst mikilvægt og skiptir okkur máli sem samfélag að gera.“

Staðan endurmetin sem fyrst

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra segir að ákvörðunin hafi verið gríðarlega erfið. Aðgerðirnir séu þó nauðsynlegar. „Það eru mikil vonbrigði að vera í þessari stöðu og það er ekki auðvelt að ákveða eitthvað svona. Staðan í löndunum í kringum okkur er einfaldlega sú að veiran er í vexti og það eitt og sér hefur augljóslega mikil áhrif á ferðavilja fólks,“ segir Þórdís og bætir við að hún vonist til að hægt verði að aflétta takmörkunum sem fyrst. Þannig verði hugsanlega hægt að einfalda sýnatöku ákveðinna landa. „Ég hef lagt mjög mikla áherslu á það að þetta verði endurskoðað og það rætt hvenær megi slaka á þessari ráðstöfun að nýju. Við náttúrulega miðum að því að ganga ekki lengra en þörf þykir á hverjum tíma, þannig að nákvæmlega hvenær verður slakað á þessari ráðstöfun verður bara að koma í ljós en það þarf að endurskoða þetta fljótt og þá reglulega.“

Hagkvæmt að herða kröfur

Að sögn sóttvarnalæknis verður erfitt að framkvæma framangreindar aðgerðir. „Þetta verður ekki auðvelt í framkvæmd. Þetta krefst mikils mannaafla í skimun og í veirurannsóknum. En ef okkur tekst að framkvæma þetta vel og gera þetta eins og við viljum þá á það að lágmarka áhættuna á að veiran komist hér inn,“ segir Þórólfur og bætir við að umrædd ráðstöfun feli í sér lágmarksáhættu. Það þýði þó ekki að veiran komist ekki inn fyrir landamærin.

„Það eru margar áskoranir samt sem áður. Veiran getur alveg komist inn. Það er engin aðferð til sem kemur algjörlega í veg fyrir það.“

„Að mínu mati er þetta rétt ákvörðun. Þetta snýst um okkar hagsmuni, hagsmuni Íslendinga,“ segir Sigfús Bjarni Sigfússon , forstjóri Hertz á Íslandi.

Segir hann að aðgerðin muni reynast ferðaþjónustunni erfið. Hún sé þó réttlætanleg. „Rök sóttvarnayfirvalda vega þyngra en rök ferðaþjónustunnar. Við treystum sóttvarnayfirvöldum og ríkisstjórninni til að taka bestu ákvarðanirnar í stöðunni. Hitt verðum við að leysa síðar.“

„Við höfum verið að gera ráð fyrir því, allt frá því í vor, að þetta gangi svolítið upp og niður í alllangan tíma,“ segir Bogi Nils Bogason , forstjóri Icelandair, en tekur fram að aðgerðirnar breyti áætlunum flugfélagsins ekki neitt. Þó hafi þetta vissulega neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna.

„Okkar áætlanir breytast ekki neitt við þetta. Auðvitað hefur þetta áhrif á trafíkina til skemmri tíma og hefur verulega neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna.“

„Ég sé ekki annað en þetta stöðvi allar komur ferðamanna til landsins, eða nánast allar. Það kemur enginn hingað til að vera hér í sóttkví og ég held að þau sem taka þessa ákvörðun geri sér alveg grein fyrir því,“ segir Kristófer Oliversson , formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu og framkvæmdastjóri Center-hótela.

Erfiðir tímar séu fram undan og landið verði í raun lokað ferðamönnum. Áformum fyrirtækisins um endurráðningar verði slegið á frest.

„Það er alveg klárt að það eru bara sóttvarnasjónarmið sem ráða för. Þetta er bara eins og skyndilokun sem nær yfir landið og miðin,“ segir Jóhannes Þór Skúlason , framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Sóttkví og önnur skimun þýði lokun landsins. Uppsögnum muni taka að fjölga á ný, enda sé íslensk ferðaþjónusta nú í raun lokuð erlendum ferðamönnum. „Ferðamenn koma ekki til landsins til að sitja í sóttkví í fjóra daga.“