Horfa þarf til lengri tíma í aðgerðum vegna veirunnar

Ákvörðun ríkisstjórnar Íslands í gær um að herða eftirlit með kórónuveirunni við landamærin má horfa á í ýmsu samhengi enda málið margbrotið, flókið og mikilli óvissu háð. Ákvarðanir erlendis hafa án efa haft áhrif og má þar nefna þá staðreynd að Ísland var komið á rauða listann hjá Noregi og að Bretar hafa hert mjög aðgerðir sem meðal annars hefur leitt til fjöldaflótta Breta yfir Ermarsundið til að forðast tveggja vikna sóttkví dveldu þeir lengur í Frakklandi.

Þessar aðgerðir og fleiri álíka koma ekki til af góðu, veirufaraldurinn er ekki að hjaðna, þvert á móti. Þegar horft er á heiminn er smitum að fjölga og þegar litið er til þeirra landa sem Íslendingar eiga mest samskipti við, heimsækja mest og fá flesta ferðamenn frá, er þróunin svipuð.

Á móti má segja að dauðsföll í heiminum hafa ekki náð alveg sömu hæðum og þau náðu í því sem kalla má fyrri bylgjuna, en munurinn á heimsvísu er þó ekki mikill og fer minnkandi. Munurinn er á hinn bóginn mikill á dauðsföllunum í vor og nú þegar horft er til landanna sem við eigum mest samskipti við og vitaskuld hlýtur einnig að þurfa að horfa til þess. Á þessu misræmi í þróun á fjölda tilfella og dauðsfalla hefur ekki fengist skýring og raunar er það furðu lítið rætt. Mögulegt er að dauðsföllum fjölgi eftir því sem tíminn líður í þessari annarri bylgju faraldursins, þó að allir voni að sjálfsögðu að svo fari ekki. Sérfræðingarnir hafa hafnað því að veiran hafi veikst, en um það voru vangaveltur, og þá er möguleiki að læknar þekki veiruna betur nú en áður og að fólk komist fyrr undir læknishendur. Þetta eru þó aðeins bollaleggingar og æskilegt væri að botn fengist í það hvers vegna dauðsföll hafa haldist niðri þrátt fyrir annan uppgang veirunnar á Vesturlöndum, enda hlýtur slíkt að geta haft áhrif á ákvarðanir um lokanir landa.

Oft getur það reynst fólki erfitt að taka afstöðu og ákvarðanir en þeim mun erfiðara sem upplýsingar eru ófullkomnari. Ríkisstjórn Íslands stóð frammi fyrir ákvörðun um aðgerðir þar sem upplýsingar eru afar ófullkomnar og ákvörðunin erfið og umdeilanleg eftir því. Enginn getur fullyrt með vissu hvaða leið af þeim níu sem sóttvarnalæknir nefndi í nótu til ráðherra sé sú besta. Raunar segir sitt um óvissuna að sóttvarnalæknir nefndi níu leiðir og segja má að með því hafi verið viðurkennt að hvaða ákvarðanir og aðgerðir sem er megi rökstyðja og réttlæta.

Eðlilegt er að það hafi komið í hlut ríkisstjórnarinnar að taka ákvörðunina um aðgerðir og jafn eðlilegt í ljósi óvissunnar að augljóst er að ólík sjónarmið ríktu innan ríkisstjórnarinnar ef marka má ummæli síðustu daga og svo þá ákvörðun sem fyrir liggur. Enn fremur er eðlilegt að fyrirtæki í ferðaþjónustu lýsi áhyggjum yfir þróuninni en engu að síður lýsa sumir í þeirri grein skilningi á ákvörðuninni. Þeir hafa líklega í huga að það kynni að vera skammgóður vermir að hafa meira opið ef afleiðingarnar yrðu að smitum í landinu fjölgaði mjög eins og hætta hefði verið á. Erlendir ferðamenn hópast ekki til landa þar sem smit eru útbreidd hvort sem landamærin eru opin til fulls eða hálfs.

Þetta breytir því ekki að nú hljóta að koma fram kröfur um að aðgerðir til að styðja við þessi fyrirtæki taki mið af breyttum forsendum. Hætt er við að atvinnuleysi í ferðaþjónustu fari aftur hækkandi og er atvinnuleysi í landinu þó talsvert fyrir. Fækkun í hlutabótaleiðinni kann að snúast við og áform um að hætta henni þarf ef til vill að endurskoða, að einhverju leyti í það minnsta.

Þegar rætt er um efnahagsaðgerðir vegna veirunnar verður þó hér eftir að horfa til þess að það ástand sem nú ríkir verður að líkindum viðvarandi um nokkra hríð, eflaust fram á næsta ár og mögulega lengur. Þess vegna skiptir nú mestu máli að horfa til langtímaaðgerða til að styðja almennt við vöxt atvinnulífsins, ekki aðeins til skammtímaaðgerða til að hjálpa fyrirtækjum að fleyta sér yfir skammtímaerfiðleika.

Þegar rætt er um efnahagsaðgerðir verður líka fljótt ljóst að flest er óljóst, eins og til dæmis má sjá við lestur minnisblaðs sem fjármálaráðherra lagði fyrir ríkisstjórn í gær. Þar eru ýmsar tölur nefndar um ávinninginn af erlendum ferðamönnum, aukin kaup Íslendinga hér á landi vegna minni ferðalaga og vangaveltur um mögulegt framhald á hvoru tveggja. Það sem upp úr stendur er að óvissan er mun meiri en almennt þegar reynt er að spá fyrir um efnahagsmál og er þá langt til jafnað.

Vona verður að ríkisstjórnin hafi í allri óvissunni hitt á réttan tölulið í tillögum sóttvarnalæknis. Um leið verður að vona að fljótlega verði hægt að stíga skref í átt að eðlilegra ástandi. Vissulega verðum við að læra að lifa með veirunni, eins og bent hefur verið á, en æskilegt er að það verði sem næst því lífi sem fólk hefur átt að venjast.