Nema hvað aumingja útlitshönnuðurinn sem ég gerði samsekan var með böggum hildar yfir þessu galna uppátæki

Hamingja? Hverju hefur hún skilað í listum? Heldurðu að Picasso, Hemingway og Hendrix hafi verið hamingjusamir? Þetta voru allt niðurdregnir fávitar. Öll alvöru list sprettur af þjáningu og eymd!“

Eitthvað á þessa leið kemst karakter Eds Harris að orði í kvikmynd sem ég sá nýlega. Harris leikur dauðvona ljósmyndara sem notið hefur gríðarlegrar velgengni í starfi en átt í basli í einkalífinu. Á lokametrunum freistar hann þess að friðmælast við stálpaðan son sinn sem hann hefur ekkert sinnt gegnum tíðina en það var einmitt sonurinn sem fékk spekina hér að ofan beint í æð. Ákveðin réttlæting af hálfu föðurins sem alla tíð hefur tekið vinnuna og sjálfan sig fram yfir fjölskylduna.

Annars er þjáning ekki efni þessa pistils né heldur forgangsröðun þessa ágæta ljósmyndara sem er skálduð persóna. Hitt er miklu áhugaverðara, þríeykið sem hann nefnir í sömu andrá hér í upphafi. Þegar ég var að vaxa úr grasi hefðu það verið helgispjöll að setja Hendrix í samhengi við Hemingway og Picasso. Dópaður gæruhippi við hlið Nóbelsskálds og eins fremsta listmálara sögunnar.

Þegar ég var ungur og uppreisnargjarn blaðamaður hér á Morgunblaðinu setti ég einu sinni ljósmynd af Frank Zappa, sem gjarnan var í svampfrakka, á forsíðu Menningarblaðsins (ekki rugla því saman við Lesbókina, en bæði blöð fylgdu Mogganum á laugardögum). Zappa var að vísu ekki í svampfrakka á myndinni en hún var listræn og hugguleg. Sé hana fyrir mér. Nema hvað aumingja útlitshönnuðurinn sem ég gerði samsekan var með böggum hildar yfir þessu galna uppátæki. Ég meina, Frank Zappa á forsíðu Menningarblaðs Morgunblaðsins! Hann þráspurði hvort mér væri alvara og þegar hann kvaddi mig um kvöldið hafði hann á orði að við þyrftum ekki að mæta í vinnuna næsta virkan dag. Og meinti það. Við sluppum þó báðir undan fallöxinni; ég man ekki einu sinni eftir að hafa verið spjaldaður.

Ég skildi svo sem alveg hvað útlitshönnuðurinn var að fara; á þessum tíma var óhugsandi að tefla Sálinni hans Jóns míns og Luciano Pavarotti fram á sömu opnunni í Morgunblaðinu. Þeir múrar milli hámenningar og poppmenningar féllu með berlínskum hvelli nokkrum árum síðar; verkefni sem óhemjugaman var að taka þátt í.

Þetta hljómar sjálfsagt undarlega í dag enda eru Picasso og Hemingway löngu búnir að hleypa Hendrix inn í samkvæmið og þeim fer óðum fækkandi sem bregður við að sjá þá félaga saman. Niðurdregna en iðandi af sköpun.