Ingibjörg Kristrún Einarsdóttir fæddist á Blönduósi 20. október 1955. Hún lést á heimili sínu 2. ágúst 2020.

Foreldrar Ingibjargar voru Kristín Bergmann Tómasdóttir, f. 1926, d. 2015, og Einar Kristjánsson, f. 1917, d. 2015. Bróðir hennar er Tómas Ragnar, f. 1953.

Eiginmaður Ingibjargar var Sigurður Rúnar Magnússon, f. 11. apríl 1952, d. 28. ágúst 2019. Börn þeirra: 1) Erla Kristrún, f. 12. október 1974. Sonur: Sigurður Kristinn Bergmann, f. 2002. Barnsfaðir: Helgi Kristinsson. 2) Einar Bergmann, f. 3. júlí 1985. Sonur: Kristján Bergmann, f. 2011. Barnsmóðir: Guðrún Tinna Steinþórsdóttir, f. 1987. Sambýliskona Einars er Hafrún Gróa Árnadóttir.

Ingibjörg Kristrún ólst upp á Laugum í Dölum þar sem foreldrar hennar stýrðu heimavistarskóla en fluttist til Reykjavíkur á unglingsárum. Hún stundaði nám við Laugaskóla, Ármúlaskóla og Húsmæðraskólann á Laugarvatni. Hún starfaði árum saman á skrifstofu Borgarspítalans og síðar við símaþjónustu Landspítalans en vann síðast sem ráðskona á leikskólanum Arnarborg í Breiðholti. Útförin fór fram í kyrrþey og var hún jarðsett í Hvammi í Dölum.

Ég var tveggja ára þegar ég eignaðist systur. Hún var skírð Ingibjörg Kristrún en kölluð Inga Rúna alla tíð. Við ólumst upp á Laugum í Dölum þar sem foreldrar okkar stýrðu heimavistarskóla og þurftum því ekki að kvarta undan skorti á leikfélögum. Á sumrin lékum við okkur saman og vorum í félagi við krakka af næstu bæjum, fyrir nú utan margar hamingjustundir á Blönduósi hjá móðurfólki okkar. Við lærðum að bjarga okkur og urðum vatnsvön í sundlauginni sem við hoppuðum oft út í, stöku sinnum í fötum. Inga Rúna felldi ekki tár þegar ég tosaði hana eitt sinn á fléttunum upp úr dýi. Það hafði nefnilega verið freistandi klaki á fagurgrænum mosanum. Svo var mamma sótt í tíma og hún fékk þurr föt. Við vorum góð saman systkinin og deildum aðeins um eitt; það var tómatsósuflaskan. Það brást ekki yfir fiski og fiskibollum að Inga Rúna segði að ég sturtaði úr flöskunni, sem gæti hafa verið sannleikskorn í, en ég svaraði á móti að hún beinlínis mokaði sósunni yfir matinn. Hinn friðsæli faðir okkar reyndi árangurslaust að hlusta á hádegisfréttirnar en pirringurinn í mömmu jókst með hverri fiskmáltíð. Hún kom svo sigrihrósandi úr kaupfélaginu í Búðardal með tvær tómatsósuflöskur og skrifaði Inga Rúna á aðra flöskuna og Tommi á hina. Eftir stóðum við systkinin rifrildislaus. Á táningsárum bjuggum við um hríð saman í Reykjavík, Inga Rúna var í námi og síðar vinnu en lærði líka á píanó. Hún var ósnortin af uppreisnaranda þessara ára og hallari undir hefðir en róttækar breytingar. Eftir að hafa útskrifast frá Húsmæðraskólanum á Laugarvatni skellti hún sér svo í alvöru lífsins, gifti sig átján ára gömul og eignaðist innan tíðar Erlu Kristrúnu og síðar Einar Bergmann. Meðfram barnauppeldi vann hún á skrifstofu, við símagæslu og síðast sem ráðskona á leikskóla. Hún sóttist ekki eftir margmenni eða útstáelsi þegar á leið ævina en dvaldi oft vestur í Árbæ í Hvammssveit, í húsinu sem foreldrar okkar byggðu í landi Leysingjastaða. Þegar þau þurftu aukins stuðnings við í ellinni kviknaði á ný á þeirri systkinasamstöðu sem einkenndi æskuárin. Það var gott hljóð í systur minni í okkar síðasta samtali en undanfarin ár höfðu engu að síður verið henni erfið; hún glímdi við afleiðingar alvarlegrar sýkingar og fyrir tæpu ári lést Sigurður lífsfélagi hennar í kjölfar langvarandi veikinda. Og nú skyndilega er hún farin burt og eftir stöndum við fátækari sem datt ekki annað í hug en hún yrði áfram fastur punktur í tilverunni. Börnin hennar og barnabörnin sakna umhyggjusamrar mömmu og ömmu og góðs félaga. Sjálfur sakna ég þess að geta ekki lengur spjallað við hana og rifjað upp í leiðinni þá bernskudaga þegar lífið var leikur að stráum. Núna stend ég einn eftir úr matarselskapnum á Laugarfelli, engin sundlaug handan við hlaðið og húsið okkar mannlaust. En kannski sitja þau þrjú þarna uppi, pabbi, mamma og Inga Rúna, og bíða róleg eftir því að drengurinn mæti í ýsuna.

Tómas R. Einarsson.