Fjallkjói Siglt var að landgrunnsbrúninni eða 30 km og sást einn fjallakjói á leiðinni.
Fjallkjói Siglt var að landgrunnsbrúninni eða 30 km og sást einn fjallakjói á leiðinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Ægisson sae@sae.is Í síðustu viku fóru tíu óforbetranlegir fuglaskoðarar héðan og þaðan að af landinu í siglingu frá Vestmannaeyjum suður á bóginn í leit að sjaldgæfum fuglum sem kynnu að vera á sveimi þar úti.

Sigurður Ægisson

sae@sae.is

Í síðustu viku fóru tíu óforbetranlegir fuglaskoðarar héðan og þaðan að af landinu í siglingu frá Vestmannaeyjum suður á bóginn í leit að sjaldgæfum fuglum sem kynnu að vera á sveimi þar úti. Einkum stóðu vonir til að sjá hafsvölu, hettuskrofu og urðaskrofu. Siglt var alla leið að landgrunnsbrúninni, um 30 km veg, á nýju rannsóknaskipi Þekkingarseturs Vestmannaeyja, Friðrik Jessyni VE 177.

Að sögn Ingvars Atla Sigurðssonar jarðfræðings og skipuleggjanda siglingarinnar hafa slíkar ferðir áður verið farnar þaðan, sú fyrsta nokkru upp úr síðustu aldamótum, svo árið 2007, 2008, 2014, 2016 og 2017, og þær gengið misvel, enda ræðst þetta mikið af veðri.

„Stormsvölur sjást alltaf, sjósvala sjaldan en síðan mikið af fýlum og fleiri algengir fuglar. Eitt sinn sáust t.d. nokkur þúsund óðinshana, líklega árið 2016,“ sagði Ingvar.

En hvernig skyldu menn fara að því að laða fuglana að bátnum?

„Við látum lýsi „drippa“ á leiðinni út, til að mynda smá slóð sem fuglarnir finna og elta, enda lyktnæmir með afbrigðum, en agnið er svo aðallega makríll, en hákarlalifur hefur líka virkað vel. Auk þess er notað efni sem kallað er DMS, sem er skammstöfun fyrir Dimethyl sulfide. Það verður m.a. til við þörungablóma og dregur pípunefi að. Best er að hakka agnið mjög smátt og frysta með vatni, þannig að það fljóti. Því er svo hent út og báturinn látinn reka með agninu. Þetta myndar líka slóð sem fuglar finna og elta. Hver kubbur endist í allt að klukkutíma en aðal vandræðin hjá okkur er hvað mikið af fýl kemur og tætir ætið í sig. Síðan er hægt að nota ófrosið agn með poppkorni eða einhverju sem drekkur í sig fitu og flýtur. Þetta er hins vegar mjög sóðalegt og lyktar illa og sennilega mun ég ekki gera þetta aftur. Ég hef enn ekki losnað við lyktina af skóm, fötum og sjónauka eftir þetta síðasta rall.“

Árið 2007 sáust fjórar gráskrofur og hafsvala, auk tunglfisks, árið 2014 sjö gráskrofur, árið 2016 sjö gráskrofur og tvær hettuskrofur og árið 2017 hettuskrofa.

Ferðin núna átti að vera átta tímar en veðurskilyrði voru óhagstæð, hvasst og mikil ölduhæð og rigning aðvífandi, svo að ákveðið var að stytta hana um tvær klukkustundir. Afraksturinn var fimm gráskrofur og einn fjallkjói.