Framkvæmdir Mörg sveitarfélög hafa flýtt viðhaldi og framkvæmdum.
Framkvæmdir Mörg sveitarfélög hafa flýtt viðhaldi og framkvæmdum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Fjárhagsáætlanirnar verða alltaf háðar þeirri óvissu að við vitum ekki hvernig hlutirnir munu þróast.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Fjárhagsáætlanirnar verða alltaf háðar þeirri óvissu að við vitum ekki hvernig hlutirnir munu þróast. Við munum hins vegar reyna eins vel og við getum að takast á við þau krefjandi verkefni sem bíða,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Sveitarfélaganna bíður það verkefni nú í haust að afgreiða fjárhagsáætlun fyrir komandi ár og næstu þrjú ár á eftir. Óhætt er að segja að flókið verði að leggja fram áætlun í því efnahagsástandi sem nú ríkir. Þetta kemur skýrt fram í minnisblaði sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent frá sér þar sem tilteknir eru sex óvissuþættir um framvindu efnahagsmála sem áhrif hafi á áætlanagerð. Þeir eru kjarasamningar, en forsendur lífskjarasamninganna verða metnar að nýju í september, ferðaþjónusta, en spár um hagvöxt á næsta ári séu nær alfarið reistar á forsendum um að hingað komi um eða yfir ein milljón ferðamanna, og gengi krónunnar og verðbólga. Þá eru ríkisfjármál óvissuþáttur samkvæmt minnisblaðinu en fjármálaætlun hefur verið frestað fram í október. Þar undir eru skattamál og fleira sem varði sveitarfélög miklu. Þá er horft til alþjóðlegrar efnahagsþróunar, s.s. Brexit, og verðs útlutningsvara. Að síðustu er tiltekið að óvissa ríki um aflabrögð í sjávarútvegi, til að mynda loðnuveiðar.

„Við þurfum með einhverjum hætti að mæta þeim útgjöldum sem fyrirséð er að bætist við en erum bundin að lögum um þjónustu að mestu leyti. Árið 2020 er þegar í uppnámi víðast hvar og væntingar um aukið útsvar í ár verða á fæstum stöðum að veruleika. Það er útlit fyrir annað mjög krefjandi ár við gerð fjárhagsáætlana. Tekjumissir er staðreynd og svo er mælst til þess að sveitarfélög hækki ekki fasteignagjöld. Boðaðar hafa verið skerðingar á jöfnunarsjóði sem getur numið 100-200 milljónum hjá sumum sveitarfélögum. Þetta er auðvitað umhverfi sem við höfum ekki séð áður,“ segir Aldís. Hún bendir á að fjármálareglur sveitarfélaga hafi verið rýmkaðar tímabundið sem hluti af aðgerðum stjórnvalda til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Það þýðir að aukið svigrúm er varðandi afkomu og skuldastöðu á næstu misserum.

„Við erum í mjög nánum samskiptum við ríkisvaldið og treystum á að það muni styðja við sveitarfélögin þegar þess gerist þörf. Það er til dæmis mjög mikilvægt að fjármunir til jöfnunarsjóðs verði auknir og einnig verður að tryggja að ákvæði um endurgreiðslu virðisaukaskatts af byggingarframkvæmdum verði framlengt út næsta ár. Það myndi auðvelda sveitarstjórnum að halda áfram uppbyggingu og fjárfestingum og þar með tryggja atvinnu í þeim atvinnugreinum.“