Skapandi Jónsi kemur víða við í listinni.
Skapandi Jónsi kemur víða við í listinni.
Tónlistarmaðurinn Jónsi, eða Jón Þór Birgisson, gaf í gær út lagið „Cannibal“ en í því syngur með honum tónlistarkonan Elizabeth Fraser úr hljómsveitinni Cocteau Twins.

Tónlistarmaðurinn Jónsi, eða Jón Þór Birgisson, gaf í gær út lagið „Cannibal“ en í því syngur með honum tónlistarkonan Elizabeth Fraser úr hljómsveitinni Cocteau Twins. „Cannibal“ er þriðja smáskífan sem kemur út af nýrri plötu Jónsa, Shiver , sem kemur út 2. október á vegum Krunk útgáfunnar. Shiver er upptökustýrt af Jónsa og A.G. Cook, stofnanda PC Music, að því er fram kemur í tilkynningu. Myndband við lagið er svo samstarfsverkefni Jónsa og Giovanni Ribisi og eins og í myndbandi við áður útgefið lag af plötunni, „Exhale“, er einn dansari í forgrunni allan tímann en Ribisi leikstýrði því einnig.

„Þegar Sigur Rós var að byrja þá var alltaf verið að bera okkur okkur saman við Cocteau Twins og það fór í taugarnar á mér. Ég vildi ekki að það væri verið að bera okkur saman við neinn,“ er haft eftir Jónsa. Fyrir nokkrum árum hafi hann byrjað hlusta á sveitina og áttað sig þá á samanburðinum. Honum hafi þótt Cocteau Twins frábær.

„Í Shiver er kafað djúpt ofan í mannlega vitund okkar og tengingu við náttúruna þar sem lífrænn og draumkenndur hljóðheimur Jónsa mætir vélrænni og framúrstefnulegri upptökustjórn A.G. Cook. Með þessu óvenjulega samstarfi heldur Jónsi áfram að þenja út mörk listformsins og skynjunar okkar,“ segir um plötuna í tilkynningu.