Myndlistarmaður „Ég er búinn að vera með hana í maganum í tvö ár,“ segir Davíð Örn Halldórsson um sýningu sína „Ókei, Au pair“ sem opnuð er í Hverfisgalleríi í dag. Afrakstur vinnu hans í Stuttgart verður þar sýndur.
Myndlistarmaður „Ég er búinn að vera með hana í maganum í tvö ár,“ segir Davíð Örn Halldórsson um sýningu sína „Ókei, Au pair“ sem opnuð er í Hverfisgalleríi í dag. Afrakstur vinnu hans í Stuttgart verður þar sýndur. — Morgunblaðið/Eggert
Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is Myndlistarmaðurinn Davíð Örn Halldórsson opnar í dag sýninguna „ Ókei, Au pair“ í Hverfisgalleríi að Hverfisgötu 4. Sýningin stendur til 24. október.

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Myndlistarmaðurinn Davíð Örn Halldórsson opnar í dag sýninguna „ Ókei, Au pair“ í Hverfisgalleríi að Hverfisgötu 4. Sýningin stendur til 24. október.

„Þetta eru allt ný verk, það sem ég hef verið að vinna að síðastliðin tvö ár. Ég hef verið búsettur í Stuttgart í Þýskalandi og þetta er allt heila klabbið sem ég hef framleitt þar,“ segir Davíð. Hann flutti verkin til landsins og það reyndist að sjálfsögðu talsverð áskorun í ljósi aðstæðna í milliríkjaflutningum undanfarna mánuði. Talsverð óvissa ríkti um flutningana framan af en blessaðist allt að lokum og Davíð segir mikla hjálp hafa verið í Covid-19-styrk Myndlistarsjóðs á lokasprettinum. Verkin komu til landsins í tæka tíð.

Davíð útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2002 og hefur að mestu einbeitt sér að gerð málverka síðan. Hann hefur unnið með óhefðbundnar málunaraðferðir; málað og spreyjað með mismunandi málningu á fundna hluti, viðarplötur, póstkort og húsgögn.

Málaði á veggfóður

Davíð segir að verkin á sýningunni séu í raun framlenging af því sem hann hefur verið að gera fram að þessu. Þarna sé að finna ákveðna þróun sem hann segist sjá sjálfur manna best. Það séu litlar áherslur hér og þar sem hafi breyst. Nú sé til dæmis meira um ólíkar myndaseríur, meðal annars póstkortaseríu þar sem hann nýtir ákveðna tækni svo sjá megi tvær ólíkar mismunandi myndir ef maður hreyfir póstkortið.

„Það er þróun í öllu sem ég hef verið að gera,“ segir myndlistarmaðurinn. „En hornsteinninn í sýningunni er það að ég tók niður veggfóðrið á vinnustofunni minni í Stuttgart eftir að ég var búinn að mála á það, setti það á viðarplötur og lakkaði það með epoxy-lakki.“

Þannig urðu til stórar myndir sem í grunninn eru fjörutíu ára gamalt veggfóður af lögreglustöð. „Það var smá fornleifafræði inni í myndinni. Ósjálfrátt fer maður að hugsa um hvað þessir veggir hafa séð og heyrt í gegnum tíðina. Ég þurfti að taka minn tíma í að ná veggfóðrinu af og finna út úr því hvernig væri best að gera það. Það tók alveg tvo og hálfan mánuð,“ segir myndlistarmaðurinn.

„Hann alveg brenglaður,“ segir Davíð um óvenjulegan titil sýningarinnar „Ókei, Au pair“ og hlær. „Þetta er eiginlega heimting á að fólk taki afstöðu til verkanna. Þetta er eitthvað sem ég greip úr lausu lofti; au pair er alltaf annaðhvort dásamlegur eða hræðilegur. Maður hefur aldrei heyrt um au pair sem er bara allt í lagi. Þannig að ég er svolítið að heimta að fólkið taki afstöðu, finnist verkin annaðhvort falleg eða hræðileg.“

Mörg blæbrigði af „ókei“

Davíð spreyjaði upphrópunina „Ókei“ á einn vegginn í galleríinu. „Það eru svo mörg blæbrigði til á því hvernig maður segir „ókei“. Mér fannst sniðugt að neyða fólk til að segja við sjálft sig „ókei“ þegar það gengur inn í salinn og þá er rými fyrir öll þessi blæbrigði.“

Davíð segir að fjölmargar hugmyndir komi saman í þessari sýningu og þess vegna er nokkuð erfitt að koma í orð um hvað hún snýst. „Ég er búinn að vera með hana í maganum í tvö ár,“ segir hann um sýninguna.

Í fréttatilkynningu um sýningaropnunina segir að verk Davíðs byggi yfirleitt á tilviljunum úr hversdagsleikanum. Þar segir: „Þau eru persónuleg úrvinnsla úr umhverfi hans sem hann varpar fram í myndmáli sem vísar með beinum og óbeinum hætti í listasöguna.“ Davíð tekur undir þetta: „Það er nákvæmlega þetta sem maður grípur og fer með inn í stúdíóið, leyfir þessu að gerjast og vinnur úr því í mörgum verkum í einu.“