Hans Adolf Hjartarson fæddist 20. september 1977. Hann lést 18. júlí 2020.

Útförin fór fram 28. júlí 2020.

Elsku Hansi hefur kvatt, alltof fljótt.

Orð eru fátækleg þegar kemur að því að kveðja þig kæri vinur.

Við kynntumst fyrst þegar fjölskyldan flutti í hverfið og dætur okkar fóru að leika sér saman, þá litlar stelpur. Það var okkar lukka, því þar eignuðumst við dýrmæta vini.

Í gegnum árin höfum við fylgst að, gert ýmislegt saman og fylgt börnunum okkar eftir, þar ber kannski hæst ferðina okkar góðu til Hollands þar sem vinaböndin voru treyst enn frekar og svo síðasta ferðin okkar í Húsafell í júní sl., sem okkur þykir óendanlega vænt um.

Þegar horft er til baka, þá er það fyrsta sem kemur upp í hugann hlátur og gleði og þá hló Hansi yfirleitt manna hæst, enda mikill húmoristi. Það var ákveðin gleði í kringum hann og veröldin varð litríkari fyrir vikið fyrir okkur hin.

Þeir sem þekktu Hansa vita að þar fór hinn mesti ljúflingur, boðinn og búinn að aðstoða og hann var svo sannarlega vinur vina sinna. Hann hafði líka einstakt lag á börnum, gaf þeim þolinmæði og hlýju en bjó líka yfir pínu prakkaraskap og fengum við heldur betur að njóta þess með Unnari okkar, sem saknar vinar síns.

Elsku Hansi. Innilegar þakkir fyrir allt elsku vinur, það er sárt að þurfa að kveðja þig, allt of allt of fljótt, því ýmislegt var eftir, en nú þarf að staldra við. Við erum þakklát fyrir vináttuna við þig og fallegu fjölskylduna þína, sem þarf nú að horfa á eftir þér, en minningarnar lifa í hjörtum okkar, alltaf.

Elsku Rakel, Helena og Hjörtur. Hjartans samúðarkveðjur til ykkar elsku vinir, missirinn er mikill. Hann var svo stoltur af ykkur, það var þeim ljóst sem hann þekktu.

Fjölskyldum Hansa og Rakelar færum við innilegar samúðarkveðjur.

Takk fyrir allt elsku vinur.

Elsa, Kristinn (Kiddi),

Fríða Margrét, Hinrik Árni og Unnar Kristinn.