[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„11. júní 1928. Ég elska sögur. Áður en ég hóf sjálf að skrifa þær, skipti ég gjarnan raunveruleikanum út fyrir skáldskap.“ Svo hljóða síðustu línurnar sem ég las í gær áður en ég lagði bók mína á náttborðið og féll inn í arma Morfeusar.

„11. júní 1928. Ég elska sögur. Áður en ég hóf sjálf að skrifa þær, skipti ég gjarnan raunveruleikanum út fyrir skáldskap.“ Svo hljóða síðustu línurnar sem ég las í gær áður en ég lagði bók mína á náttborðið og féll inn í arma Morfeusar. Setningin er úr Dagbók frönsku skáldkonunnar Mireille Havet (1898-1932). Havet er ein þeirra merku kvenna í sögunni sem hlaut ekki verðskuldaða athygli á meðan hún lifði og féll fljótt í gleymsku eftir stutta, en viðburðaríka og skapandi, ævi. Áhugi á lífi hennar og list vaknaði á ný í kringum aldamótin 2000 þegar gríðarstórt safn dagbókaskrifa Havet fannst. Ég veit ekki til þess að bækurnar hafi verið þýddar yfir á önnur tungumál, og þar sem franskan er mér enn ekki alkunn blaða ég löturhægt í bókinni með hjálp Google Translate og Snöru. Lesturinn er furðu ánægjulegur, mér líður eins og ég þurfi að vinna mér inn hverja einustu setningu, en það gerir þetta að eins konar leikspili sem ég spila við sjálfa mig fyrir svefn.

Á náttborðinu er yfirleitt sjö til átta bókum staflað hverri ofan á aðra. Bókafjallið samanstendur oftast af óskálduðu efni; ritgerðum, sjálfsævisögum eða persónulegum skrifum. Nú er það Mireille Havet sem trónir á toppi bókafjallsins, undir henni liggur rúmenski hugsuðurinn E. M. Cioran með níhílískar ritgerðir sínar um tilvist mannsins ( The Trouble With Being Born , 1973), á eftir honum koma tveir doðrantar sem verka sem eins konar burðarás fjallsins; annars vegar minnisbækur Simone Weil og hins vegar ritgerðir Michel de Montaigne. Þeim ritum skipti ég sjaldnast út úr fjallinu enda toga þau í mig á nokkurs konar trúarlegan máta, verð alltaf að hafa þær í nálægð við höfuðgafl rúmsins.

Við rætur bókafjallsins liggur síðan um þessar mundir ævisaga fjöllistakonunnar Evu Palmer Sikelianos (1874-1952), A Life In Ruins . Lífi sínu lifði hún sem vísvitandi tímaskekkju. Hennar innri hugarheimur, drifkraftur og hjarta virðist hafa verið uppi einhvern tímann fyrir Krist, sömuleiðis ytri ásýndin sem ávallt var í samræmi við fagurfræði, hugsun og hefðir Forn-Grikkja. Anakrónismi í lifanda lífi! Ég hugsa að persónuleg tímaskekkja hvers og eins heltaki mig á sama máta og trúarbrögð og töfrar.