Betra er að hafa elskað og misst, en að hafa aldrei elskað yfir höfuð sagði skáldið einhvern tímann. Undanfarnar vikur og mánuði hef ég byrjað að véféngja sannleiksgildi þessa spakmælis samhliða því hvernig ástin rennur mér sífellt úr greipum.
Betra er að hafa elskað og misst, en að hafa aldrei elskað yfir höfuð sagði skáldið einhvern tímann. Undanfarnar vikur og mánuði hef ég byrjað að véféngja sannleiksgildi þessa spakmælis samhliða því hvernig ástin rennur mér sífellt úr greipum.

Fyrsti missirinn var í vor, þegar heimsfaraldur kippti undan mér fótunum þegar ég var rétt að komast á skrið. Stutt var í örlagastundir stærstu deilda Evrópu þar sem menn hljóta vegsemd og frægð í stærstu leikjunum. Þá var komin sú stund í Meistaradeildinni þar sem menn duga eða drepast, sjálfri útsláttarkeppninni. Og þá kom skellurinn. Veiruskrattinn óð yfir byggðir heimsins og fótboltinn var flautaður af.

Við tók hvimleið bið. Verður yfir höfuð hægt að ljúka keppni? Verður eitthvert Íslandsmót? Jú, við komumst yfir hæðina. Hægt var að klára sparkið erlendis og Evrópukeppnir eru orðnar að hraðmótum sem svipar helst til stórmóta landsliða. Alls staðar er spilað fyrir luktum dyrum en eitthvað er betra en ekkert. Þá hófst Íslandsmótið, að vísu seint en hófst þó.

Byrjunin reyndist þó gáleysisleg. Boltaþyrstir Íslendingar flykktust á völlinn og gerðu tónlistarmönnum og partífólki skráveifu. Upp komst um smit á fótboltamóti í Laugardalnum og önnur veirubylgja setti allt í baklás. Íslandsmótinu var frestað.

Íslandsmótið er nú byrjað aftur en ég þori ekki að láta mig dreyma, ekki alveg strax. Ég ætla að ganga hægt um gleðinnar dyr að þessu sinni. Ég ræð ekki við annan missi og í raun, ef að honum kemur, mun ég óska þess að hafa bara aldrei elskað til að byrja með.