Gosið Eldgos varð í Grímsvötnum árið 1996 í kjölfar mikillar skjálftahrinu. Almannavarnanefnd var þá kölluð saman til að skipuleggja viðbrögðin.
Gosið Eldgos varð í Grímsvötnum árið 1996 í kjölfar mikillar skjálftahrinu. Almannavarnanefnd var þá kölluð saman til að skipuleggja viðbrögðin. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pétur Magnússon petur@mbl.is „Þegar við sjáum að það eru hlaup að fara að koma í Grímsvötnum þá þurfum við alltaf að búast við gosum líka,“ segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Pétur Magnússon

petur@mbl.is

„Þegar við sjáum að það eru hlaup að fara að koma í Grímsvötnum þá þurfum við alltaf að búast við gosum líka,“ segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Á föstudag greindi mbl.is frá því að hlaup væri líklega að hefjast í Grímsvötnum, en þá hafði vísindaráð almannavarna fundað og farið yfir gögn úr mælitækjum sem vakta Grímsvötn. Ekki var hægt að staðfesta með vissu hvort hlaup væri hafið úr Grímsvötnum, en ráðið mun funda klukkan 10 árdegis í dag.

Nokkuð góður fyrirvari

Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. „Það er einföld eðlisfræði að þegar þú tappar af eða losar þyngdina af, þá er auðveldara fyrir gosið að leita upp,“ útskýrir Elísabet. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922.

Elísabet segir að breytingarnar í mælitækjum við Grímsvötn hafi verið afar litlar, svo erfitt sé að túlka niðurstöður þeirra.

„Það hefur ekki alltaf gerst að það verði gos eftir hlaup,“ segir Elísabet, en þegar slík atburðarás á sér stað er mismunandi hversu langur tími líður á milli þess að það hleypur úr Grímsvötnum og að gos hefjist.

„Stundum eru hlaupin mjög stutt, en stundum vara þau í marga daga. Það fer eftir því hversu mikið vatn er að losna úr Grímsvötnum. Yfirleitt er talað um nokkra daga, svo við höfum nokkuð góðan fyrirvara á þessu.“

Benedikt Ófeigsson, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við mbl.is í gær að ef gos verði sé ekki búist við stóru gosi, þó svo að ekkert sé hægt að fullyrða um það.

Síðast gaus í Grímsvötnum árið 2011, en Benedikt segir að það hafi verið óvenjulegt að mörgu leyti, því það var stærra gos en þau síðustu sem komu á undan.