Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Hestum komið hagann í. Um hafið sjáum vaða. Framin oft með ys og gný. Íþrótt seiglu og hraða. Hér er lausn Hörpu á Hjarðarfelli: Hestum líkar hagaganga. Um hafið fiskiganga veður.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Hestum komið hagann í.

Um hafið sjáum vaða.

Framin oft með ys og gný.

Íþrótt seiglu og hraða.

Hér er lausn Hörpu á Hjarðarfelli:

Hestum líkar hagaganga.

Um hafið fiskiganga veður.

Skemmtileg þá skrúð- er –ganga

og skíðaganga sem að kveður.

Kennari í Vesturbænum sendi þessa hugmynd að lausn:

Hagagöngu hrossin þrá.

Hér var síldarganga.

Í kröfugöngu gekk ég þá.

Ganga er sportið stranga.

Helgi Þorláksson svarar: „Við hjónin, ég og Auður, látum verða eitt fyrsta verkið á laugardagsmorgnum að skoða gátu frá Guðmundi. Við erum honum þakklát fyrir gáturnar og þér fyrir að halda úti vísnaþættinum. Hér kemur rímuð lausn við síðustu gátu (nr. 40, er það ekki?).“

Hestar ganga í haga á beit,

hamast ganga á síldarslóð,

kröfuganga hvetur sveit,

kappganga er holl og góð.

„Þá er það lausnin,“ frá Helga R. Einarssyni:

Á heiðum uppi hestagöngur.

Höfin prýða síldargöngur.

Víða sjá má gleðigöngur.

Grannir stunda af kappi göngur.

Þannig skýrir Guðmundur gátuna:

Í hagagöngu hestum beitt.

Um hafið fiskiganga þreytt.

Í kröfugöngu köll og hróp.

Í kappgöngu við sjáum hóp.

Þá er limra:

Það sást til Miðfjarðar-Möngu

einn morgun hér fyrir löngu,

hún gekk fram af sér,

eins og gengur, og er

víst orðin að afturgöngu.

Og síðan ný gáta eftir Guðmund nr. 41:

Í bólinu ég lengi lá,

loks þó hafði mig á stjá,

gátu síðan samdi þá,

sem nú hérna líta má:

Krakki þessi kátur er.

Kerra, sem um veginn fer.

Hér um ræðir heimskan ver.

Heiti þetta maður ber.

Útilegumaður kom á réttarvegg, en í réttinni átti hann sauð einn mikinn, mórauðan að lit. Hann kvað:

Mórauður með mikinn lagð

mænir yfir sauða kranz.

Hófur, netnál, biti, bragð

á báðum eyrum mark er hans.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is