Regína Pétursdóttir fæddist 5. júlí 1947. Hún lést 14. júlí 2020.

Athöfn hefur fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Það er mikil sorg og söknuður að segja skilið við elskulega tengdamóðir mína hana Regínu Pétursdóttir. Eftir hana er stórt skarð sem verður erfitt að fylla.

Þrátt fyrir að vera ungur kærasti Lilju, yngstu dótturinnar, þá var mér vel tekið með hlýju og umhyggju. Það var stjanað við mig meira heldur en ég átti að venjast.

Hún sá um að maður væri ekki svangur, væri alltaf með hrein föt og hefði það almennt notalegt.

Það fengu líka krakkarnir okkar að kynnast eftir að þau komu í heiminn.

Maturinn borinn til þeirra og fótanudd fyrir svefninn. Það var alltaf sótt í að fá þau til sín eða með sér hvert sem var farið og það voru ófáar ferðirnar í bústað Útgerðarfélags Akureyrar, í Aðaldal. Þar fengu krakkarnir óskipta athygli frá morgni til kvölds.

Regína hafði einlægan áhuga á fólki og hafði mikinn hæfileika og þolinmæði til að hlusta. Það var gott að leita til hennar ef maður þurfti að létta á sér og þá var hlustað án þess að leggja dóm á umræðuefnið. Einnig var Regína skemmtilegur sögumaður og setti sig gjarnan í hlutverkin með mismunandi röddum og hreyfingum til að ná sem bestum tilþrifum. Það var líka áhugavert að fylgjast með því hvað sögurnar héldu sér ef maður heyrði þær aftur, eins og um vel æft leikrit væri að ræða.

Það gerðist reyndar oft að maður heyrði sömu sögurnar aftur enda var örugglega erfitt að halda utan um hverjir hefðu heyrt hana áður og hverjir ekki. Það breytti engu því það var ekkert leiðinlegra að hlusta á hana í annað skiptið.

Veikindi Regínu voru flestum kunnug sem hana þekktu en hún jafnaði sig aldrei almennilega eftir krabbameinsmeðferðir sem hún hafði farið í á árum áður. Þrátt fyrir það þá virtist hún alltaf hafa mikinn lífsvilja, þraustseigju og æðruleysi.

Það hefur þurft sterkan persónuleika að halda góðu jafnaðargeði eftir allt sem hún þurfti að ganga í gegnum og sætta sig við. Þrátt fyrir það kvartaði hún aldrei og stóð sig eins og hetja allt fram á síðustu stundu.

Ég þakka kærlega fyrir mig og mína fjölskyldu elsku Regína mín og vonandi hefur þú það yndislegt, hvar sem þú ert.

Grétar Þorsteinsson.

Mamma mín er farin, hún barðist eins og besta valkyrja við illvígan sjúkdóm og afleiðingar hans.

Hún átti 3 eldri systur og eignaðist svo 2 yngri bræður sem voru henni mjög kærir.

Hún missti bróa sinn allt of ungan og hún sagðist hafa syrgt hann svo mikið að hún kláraði öll tárin sín. Það er ég viss um að núna sitja þau og rifja upp gömlu dagana prakkarastrikin og monta sig af öllum börnunum sínum og afkomendum.

Mamma elskaði okkur öll börnin sín og fékk ekki nógu margar og langar heimsóknir, oft þegar ég var búin að kyssa og kveðja varð hún bara aðeins að sýna mér eitthvað mismerkilegt, það gat farið og í taugarnar á mér en núna mun ég sakna þess.

Mamma var hetja og þess eru svo ótal dæmi. Hún fór ein með mig til Englands í hjartaaðgerð, hún 25 ára og ég 5 ára, hún mállaus og ekki með mikinn stuðning og á ég henni því lífið að þakka tvöfalt. Hún talaði mikið um þessa reynslu og augljóst var að þetta mótaði hana mikið. Hún varð einstæð móðir ung með þrjú börn, vann úti og hélt fallegt heimili fyrir okkur systkinin, saumaði og prjónaði á okkur og passaði upp á að við værum ekki svöng.

Hún keypti sér litla íbúð þar sem við höfðum það gott. Mamma vann alltaf úti og að vinna með eldri borgara og fatlaða einstaklinga var hennar köllun.

Faðir hennar var Færeyingur og mömmu þótti undurvænt um þær rætur sínar og fór nokkrum sinnum til færeyja og við tvær vorum að vinna í því að hún næði nægilega góðri heilsu svo við gætum skroppið til færeyja saman, en nú mun ég fara í ferðina með Ísak mínum. Mamma vildi öllum vel og reyndi að sjá gott í öllum.

Síðustu árin eftir að ég flutti til Ólafsfjarðar og móðurafi minn Pétur flutti á Hornbrekku, heimili fyrir aldraða hér í firðinum, komu mamma og Beggi nánast vikulega að heilsa upp á afa.

Það voru margir sem dáðust af dugnaðnum í þeim að keyra múlann um vetur og í alla vega færð en mamma sat gjarnan og heklaði eða saumaði út á leiðinni og fóstri keyrði varlega með dýrmæta farminn sinn, mömmu og Tobba tjúa sem er meira dekraður en nokkurt barn.

Hún var mikil hannyrðakona og við börnin hennar eigum ótal fallega muni eftir hana bæði saumaða, málað keramík og porstulín.

Jólin voru mömmu mikilvæg og okkur þótti alltaf jafn fyndið þegar hún gaf okkur svo góða vísbendingu um hvað við fengjum að hún hefði getað gefið okkur pakkann strax.

Við mamma töluðum oftast saman fyrir nóttina, bulluðum og buðum svo góða nótt, og stundum ef hún náði ekki á mig og ég gleymdi að hringja var ég sett í straff og það gat liðið smá tími áður en að ég fattaði það. Já það er margt sem ég mun sakna og tárin trilla oft þegar ég hugsa til þín elsku mamma mín.

Ég er viss um að þú bíður mín þegar minn tími kemur, ég elska þig.

P.s. ég lít eftir Begga og Tobba.

Þín dóttir

Aðalheiður (Alla),

Ísak og börn.