Sólarorka Crescent Dunes-sólarorkuverið við Tonopah í Nevada, rúmlega 310 km norðaustur af Las Vegas.
Sólarorka Crescent Dunes-sólarorkuverið við Tonopah í Nevada, rúmlega 310 km norðaustur af Las Vegas. — APF
Ágúst Ásgeirsson agas@mbl.is Slegin voru öll fyrri met á fyrri helmingi ársins er framleiðsla vind- og sólorku nam 10% af allri raforkuframleiðslu heimsins. Á sama tíma voru orkuver sem ganga fyrir kolum keyrð á innan við helmingsafköstum.

Ágúst Ásgeirsson

agas@mbl.is

Slegin voru öll fyrri met á fyrri helmingi ársins er framleiðsla vind- og sólorku nam 10% af allri raforkuframleiðslu heimsins. Á sama tíma voru orkuver sem ganga fyrir kolum keyrð á innan við helmingsafköstum. Kemur þetta fram í nýrri greiningu Ember-hugveitunnar sem helgar sig orkumálum.

Þrátt fyrir næstum metsamdrátt spurnar eftir orku í heiminum vegna kórónuveirufaraldursins var framlag endurnýjanlegra orkugjafa 1.129 teravattstundir mánuðina janúar til júní. Til samanburðar nam framleiðslan 992 teravattstundum fyrstu sex mánuðina í fyrra, 2019, samkvæmt greiningu Ember.

Hefur hlutfall vind- og sólorku meira en tvöfaldast frá 2015 er það nam 4,6%. Á því ári var Parísarsamkomulag um loftslagsbreytingar undirritað.

Orkuframleiðsla úr kolum hefur á hinn bóginn dregist saman um 8,3% á fyrri helmingi ársins. Samdrátturinn átti sér stað þrátt fyrir að Kínverjar hafi lítillega aukið hlut sinn í raforkuframleiðslu með kolum.

„Vöxtur vind- og sólorku hefur aukist lygilega frá 2015,“ sagði Dave Jones, aðalsérfræðingur Ember um raforkumál, við frönsku fréttaveituna AFP. „Þegar við spyrjum okkur hvort þetta sé nóg erum við í raun að tala um hversu hratt útblástur dregst saman. Þrjátíu prósent losunar jarðefnaeldsneytis í heiminum kemur bara frá raforkuverum sem brenna kolum. Til að takmarka loftslagsbreytingar verða kolaverin að lækka losun sína hratt,“ sagði Jones.

Í greiningunni má glögglega sjá, að stór hagkerfi – þar á meðal Kína, Bandaríkin, Indland, Japan, Brasilía og Tyrkland – framleiða að minnsta kosti 10% raforku sinnar með vind- og sólorkuverum. Bretland og Evrópusambandið eru tekin sérstaklega út fyrir sviga og hrósað fyrir framleiðslu raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum. Skerfur Bretlands er 21% og ESB 33%.

„Ekki nógu skjótvirkt“

Í Parísarsamkomulaginu skuldbundu þjóðir sig til að takmarka hækkun lofthita við „vel undir“ tvær gráður á Celsíus frá því sem var fyrir iðnbyltinguna. Aðallega hétu þær að ná því fram með verulega lækkaðri losun gróðurhúsalofts. Markmið samkomulagsins er að takmarka hlýnunina við 1,5°C. Til að ná settu marki hafa Sameinuðu þjóðirnar sagt að losun þyrfti að minnka um 7,6% árlega út núverandi áratug.

Jones sagði að 30% af samdrætti kolaveranna mætti rekja til aukinnar raforkuframleiðslu vind- og sólorkuvera. Afgangurinn skrifaðist svo líklega allur á kórónuveirufaraldurinn. „Stór hluti þessa er augljóslega af völdum faraldursins fremur en langvarandi þróunar. Og í hreinskilni sagt er breytingin ekki nógu hröð ef takmarkið er 1,5°C.“

Ríkjapallborðið um loftslagsbreytingar segir að kolanotkun þurfi að falla 13% ár hvert til að markmiðið um 1,5%°C lifi.