Tryggvi Gíslason
Tryggvi Gíslason
Eftir Tryggva Gíslason: "Í umræðunni um veiruna hafa aðrar hörmungar fallið í skuggann: styrjaldir, hryðjuverk, ofbeldi, fátækt, mismunun og líkamleg og andleg vanlíðan."

Heimurinn lifir nú fordæmalausa tíma, og þeir, sem byggja þessa jörð, eiga eftir að búa við helvítisveiruna og afleiðingar hennar um ókomin ár. Vísindamenn munu hins vegar leggja veiruna að velli, enda eru 26 bóluefni á lokastigi rannsókna og efnin prófuð á tugþúsundum einstaklinga. Verða virkni þeirra og eitrunaráhrif könnuð áður en efnin verða lögð fyrir til samþykkis.

Bretar, Bandaríkjamenn og Kínverjar vinna saman

Við Oxford-háskóla í samstarfi við AstraZeneca í Cambridge og kínverska líftæknifyrirtækið Sinovac Biotech er unnið að rannsóknum, sem komnar eru langt á veg, og verið að prófa á þúsundum heilbrigðisstarfsmanna í Brasilíu. Auk þess stefna þýska fyrirtækið BioNTech og bandaríski lyfjarisinn Pfizer að því að prófa bóluefni sín á allt að 30 þúsund ungum sjálfboðaliðum. Hið sama er uppi á teningnum hjá bandaríska lyfjafyrirtækinu Moderna og kínverska fyrirtækinu Sinopharm sem hafa prófað bóluefni sitt á 15 þúsund manns í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þá fylgist Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin með þróun 139 bóluefna til viðbótar, sem enn eru á frumstigi rannsókna.

Ýmislegt hefur gleymst

Í umræðunni um helvítisveiruna hafa aðrar hörmungar, sem lengi hafa fylgt mannkyni, fallið í skuggann – eða jafnvel gleymst: styrjaldir, hryðjuverk, ofbeldi, fátækt, misrétti, mismunun og líkamleg og andleg vanlíðan. Enginn vafi leikur á, að vísindamönum tekst að vinna bug á helvítisveirunni. Ýmislegt hefur breyst í kjölfar veirunnar og margt á enn eftir að breytast – flest til hins betra, því þeir sem byggja þessa jörð verða að breyta hegðan sinni. Ekkert bóluefni verður hins vegar fundið við þessum hörmungunum sem fallið hafa í skuggann eða jafnvel gleymst: styrjöldum, hryðjuverkum, ofbeldi, fátækt, misrétti, mismunun og líkamlegri og andlegri vanlíðan. Það er verkefni, sem við blasir – og þarfnast úrlausnar.

Höfundur er fyrrverandi skólameistari Menntaskólans á Akureyri tryggvi.gislason@gmail.com