Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.is „Fyrirtæki eru strax farin að finna fyrir þessu. Það er alveg ljóst að ferðamenn eru ekki að fara að koma til landsins,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

„Fyrirtæki eru strax farin að finna fyrir þessu. Það er alveg ljóst að ferðamenn eru ekki að fara að koma til landsins,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Vísar hann þar til hertra aðgerða ríkisstjórnarinnar við landamærin, en á blaðamannafundi hennar í gær var tilkynnt um nýtt fyrirkomulag við landamæraskimun sem tekur gildi 19. ágúst. Frá þeim tíma verða allir þeir sem hingað koma til lands látnir undirgangast skimun og í kjölfarið sæta fjögurra til sex daga sóttkví, áður en annað sýni er tekið úr þeim.

Heimkomusmitgát lögð niður

Um umtalsverða breytingu er að ræða en fram til þessa hafa farþegar frá „öruggum löndum“ ekki þurft að fylgja þessu fyrirkomulagi. Svokölluð heimkomusmitgát hefur sömuleiðis verið lögð niður. Var ákvörðunin tekin í kjölfar aukinnar útbreiðslu faraldurs kórónuveirunnar hér á landi.

Jóhannes Þór segir í samtali við Morgunblaðið að fyrirvari framangreindra aðgerða hafi verið of skammur. Þannig hafi fyrirtækjum verið gert ómögulegt að bregðast við. „Fyrirvarinn hefði mátt og þurft að vera lengri. Fyrirtækin fengu enga möguleika til að vinna úr því sem er í kerfunum í ágúst,“ segir Jóhannes og bætir við að miklar gjaldeyristekjur tapist.

„Það er verið að klippa hálfan ágústmánuð út. Við erum að slá á fjóra til fimm milljarða króna í töpuðum gjaldeyristekjum. Það munar um minna á svona tímum.“

Að hans sögn bendir margt til þess að tekjur ákveðinna fyrirtækja verði engar. „Í mörgum tilfellum fara þær bara niður í núll. Miðað við samtöl sem ég hef átt má gera ráð fyrir að þetta séu tvö til þrjú þúsund manns sem ákveða þarf hvort sagt verði upp.“

Aðspurður segir hann engar aðgerðir í kortunum, til að stemma stigu við efnahagslegum afleiðingum aðgerðanna fyrir ferðaþjónustu. „Það hafa engar mótvægisaðgerðir verið nefndar í mín eyru. Það er alveg ljóst að það þarf að skoða það mjög vel.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að nauðsynlegt hafi verið talið að grípa strax fast inn í. Gangi vel að ná tökum á útbreiðslu faraldursins verði í framhaldinu skoðað hvort aflétting komi til greina.

Smit muni greinast daglega

Samkvæmt líkani vísindamanna við Háskóla Íslands, embætti landlæknis og Landspítalann mun innanlandssmit kórónuveiru líklega greinast nær daglega út þennan mánuð og inn í september. Líkanið tekur ekki til ytri þátta heldur er einvörðungu horft til fjölda smita.