Norska líftæknifyrirtækið Lytix Biopharma hefur gert leyfissamning við bandaríska lyfjaþróunarfyrirtækið Verrica Pharmaceuticals um að þróa og markaðssetja lyfjakandídatinn LTX-315 frá Lytix.

Norska líftæknifyrirtækið Lytix Biopharma hefur gert leyfissamning við bandaríska lyfjaþróunarfyrirtækið Verrica Pharmaceuticals um að þróa og markaðssetja lyfjakandídatinn LTX-315 frá Lytix.

Baldur Sveinbjörnsson er einn stofnenda Lytix Biopharma en hann hefur helgað starfsferil sinn rannsóknum á krabbameini.

Verrica Pharmaceuticals er skráð á NASDAQ. Að sögn Baldurs hyggst Verrica þróa lyfið frekar til notkunar gegn tveimur gerðum húðkrabbameins; grunnfrumukrabbameini og flöguþekjukrabbameini.

Fær áfangagreiðslur

„Fyrir vikið fær Lytix greiðslur við undiritun samnings, ásamt áfangagreiðslum og öðrum þóknunum eftir markaðssetningu upp á rúmlega 110 milljónir dala,“ segir Baldur en fjárhæðin samsvarar um 15 milljörðum króna.

„Þessar gerðir húðkrabbameins eru mjög algengar og batahorfur eru yfirleitt góðar, þótt dæmi séu um að þau dragi menn til dauða. Þau eru meðhöndluð með einfaldri skurðaðgerð sem er þó oft sársaukafull og skilur eftir sig ör. Að auki upplifa margir sjúklingar endurkomu æxlanna. Hugsunin að baki LTX-315 er að koma af stað drepi í æxlinu og samtímis mynda ónæmissvar gegn æxlinu til að koma í veg fyrir endurkomu.

Við gerðum ráð fyrir að lyfið gæti komið á markað fyrir 2030. Með samstarfinu við Verrica gæti það gerst töluvert fyrr. Þetta fyrirtæki hefur fjárhagslega og faglega burði til að koma lyfinu fyrr á markað en við hefðum getað og ég hef fulla trú á að þetta gangi eftir,“ segir Baldur. Ef verkefnið skili árangri geti heildargreiðslur orðið hærri.

Lytix hélt kynningu vestanhafs fyrir bandaríska fjárfesta í fyrrahaust sem skilaði þessum samningi. Þá aflaði félagið sem svarar 600 milljónum króna frá hluthöfum í Noregi í ársbyrjun, skömmu áður en kórónuveirufaraldurinn breiddist út.

Rannsaka fleiri krabbamein

Að sögn Baldurs mun Lytix halda áfram klínískum rannsóknum með LTX-315 fyrir aðrar gerðir krabbameins, svo sem sortuæxli og brjóstakrabbamein, og eru umfangsmiklar tilraunir áformaðar í Bandaríkjunum á næsta ári. Þá muni Lytix halda áfram þróun annarra lyfjakandídata sem eru í pípunum. baldura@mbl.is