Heyskapur Sumar í sveitunum.
Heyskapur Sumar í sveitunum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Núna þurfa bændur þurrk í eina viku og þá erum við komnir á beina braut,“ sagði Aðalsteinn Þorgeirsson á Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi í samtali við Morgunblaðið.

„Núna þurfa bændur þurrk í eina viku og þá erum við komnir á beina braut,“ sagði Aðalsteinn Þorgeirsson á Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi í samtali við Morgunblaðið. Fyrri slætti lauk hann fyrir nokkru, bar þá áburð á túnin sem nú eru vel sprottin eftir hlýindi og rigningu um nokkurt skeið. Annar sláttur sumarsins er því nú fram undan og beðið er eftir góðri spá sem veit á heyskaparveður í nokkra daga.

Á Hrafnkelsstöðum er Aðalsteinn með um 70 ha. tún sem í fyrri slætti skiluðu honum góðum og næringarríkum heyjum. „Menn eru ábyggilega allir búnir með fyrri sláttinn. Uppskeran er fín og heilt yfir er staðan á heyskap hér í uppsveitunum góð.“

Þreytt á ósköpum

„Hér hefur rignt mikið í talsverðan tíma og við erum orðin þreytt á þessum ósköpum. Fyrri hluti sumars var þó mjög góður tími, eftir leiðinlegan vetur,“ segir Oddný Steina Valsdóttir bóndi á Butru í Fljótshlíð. Þar á bæ stendur seinni sláttur yfir og nú þarf að ná hánni í hús. Fyrri sláttur sem flestir bændur á svæðinu luku í júlí gekk vel og að því leyti er fólk komið fyrir vind. Flestir Fljótshlíðarbændur heyja í rúllur, en í vöxt færist í Rangárvallasýslum að heyjað sé í stæður og flatgryfjur, þá einkum á stærri búum ella að nokkrir taki sig saman til slíkra vinnubragða svo sem með tækjakosti.

„Við fengum svakalega flottan þurrk í júlí,“ segir Einar Freyr Elínarson, bóndi í Sólheimahjáleigu í Mýrdal. Á þeim dögum segir hann flesta hafa náð fyrri slætti og nú sé seinni lotan tekin við. Í ferðaþjónustu, sem sé mikilvægur atvinnuvegur í Mýrdal, sé staðan hins vegar tvísýn. Á vetrum hafi ferðamenn frá Bandaríkjunum og Eyjaálfu gjarnan dvalist á svæðinu, en verði sennilega sjaldséðir á næstunni. sbs@mbl.is