[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Vísbendingar eru um að viðskiptakjör þjóðarinnar hafi gefið eftir að undanförnu samhliða hækkandi olíuverði.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Vísbendingar eru um að viðskiptakjör þjóðarinnar hafi gefið eftir að undanförnu samhliða hækkandi olíuverði.

Þetta má lesa úr greiningu Yngva Harðarsonar, hagfræðings og framkvæmdastjóra Analytica, sem gerð var fyrir Morgunblaðið.

Hækki verð á innfluttum vörum og þjónustu umfram verð á útflutningi þá rýrna viðskiptakjörin. Þau batna hins vegar þegar verð á útfluttum vörum og þjónustu hækkar umfram innflutning.

Samkvæmt greiningu Yngva hefur fiskverð sem hlutfall af olíuverði gefið eftir undanfarið. Sömu sögu er að segja af álverði. Vegna vægis áls og fisks í útflutningi notar Yngvi þessar vörur sem mælikvarða á viðskiptakjörin.

Dýrara að sækja aflann

Ef hlutfall olíukostnaðar gagnvart fiskverði hækkar er orðið dýrara að kaupa olíu til að sækja aflann. Með því hefur sá hlutfallslegi kostnaður aukist og viðskiptakjörin versnað sem því nemur.

Almennt þýða lakari viðskiptakjör versnandi ytri skilyrði þjóðarbúsins. Lakari viðskiptakjör hafa því neikvæð áhrif á þróun kaupmáttar.

Dýrari olía meginskýringin

Verð á olíu hefur hækkað mikið undanfarinn fjórðung. Tunnan af Norðursjávarolíu kostaði þannig um 30 dali í byrjun maí en kostar nú um 45 dollara. Það er 50% hækkun.

Yngvi segir þetta meginskýringuna á lækkun fiskverðs og álverðs sem hlutfall af olíuverði.

Hvað snertir horfurnar á næstu vikum bendir Yngvi á að horfur hafi daprast í þjónustuútflutningi. Undir þann flokk falli ferðaþjónustan en verð á gistingu og annarri þjónustu til ferðamanna hafi gefið eftir í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Viðskiptakjör í ferðaþjónustu hafa því rýrnað með hærra olíuverði.

Þá bendir Yngvi á að hækkun olíuverðs eigi þátt í hækkun hrávöruverðs að undanförnu. En verð á hrávöru hafði gefið eftir í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Á svipuðum stað og 2007

Eins og sjá má á grafinu hér fyrir ofan eru viðskiptakjörin nú á svipuðum slóðum og á þriðja fjórðungi 2008 og öðrum fjórðungi 2015. Það fer ekki fjarri því að hið sama megi segja um raungengið.

Viðskiptakjörin náðu svo hámarki á öðrum fjórðungi 2017 en það var síðasta þensluárið í ferðaþjónustunni áður en niðursveifla vegna falls WOW air og svo veirunnar hófst.

Spáir bættum viðskiptakjörum

Fjallað er um þróun viðskiptakjara í síðasta Fjármálastöðugleika sem kom út í byrjun júlí.

Þar sagði að raungengi miðað við hlutfallslegt verðlag væri um 10% lægra í maí en í ársbyrjun sem skýrðist að mestu af 9% lækkun á nafngengi krónunnar.

Áhrifin gengið til baka

„Viðskiptakjör rýrnuðu á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en þróunin skýrist m.a. af hækkun innflutningsverðs vegna gengislækkunar. Hagstæð þróun olíu- og sjávarafurðaverðs hefur aftur á móti dregið úr rýrnun viðskiptakjara,“ sagði þar m.a. En sem áður segir hefur olíuverðið hækkað og viðskiptakjörin því rýrnað. Spáði Seðlabankinn því að veikara gengi og bætt viðskiptakjör á árinu í heild myndu styðja við útflutningsgreinarnar. Raungengið hefur gefið eftir, eins og sjá má á grafinu.