Fólkið í ferðaþjónustunni segir að það sé ekki hægt að loka veiruna úti og fólkið sem er að bugast yfir samkomutakmörkunum vill skella landinu í lás og halda sínu striki. Halda tónleika og spila fótboltaleiki. Og svo er náttúrulega Kári Stefánsson sem er bara alltaf agalega pirraður út af öllu.

Ég man þá tíð, skömmu eftir hrun, að orðið hagfræðingur þótti eitt versta orð íslenskrar tungu. Enginn tók mark á þeim og þeim var kennt um allt mögulegt, aðallega þó það að hafa ekki séð fyrir hrunið. Þeir hefðu misskilið fræðigrein sína fullkomlega og gleymt sér í dansinum kringum gullkálfinn. Ekki síst hefðu þeir gleymt að hagfræði væri félagsvísindi og þeim því ætlað að skoða mannlega hegðun, sem hefði verið rót hrunsins en ekki bara reikna út þjóðhagslega hagkvæmni þess að gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð.

Svo gerist það hér, og úti um allan heim, að það kemur faraldur. Þjóðfélagið fer á hliðina og ótti grípur um sig. Mæta þá ekki hagfræðingarnir og reikna það út að skynsamlegast væri að loka landinu.

Nú vill svo til að sumir taka þeim eins og hetjum. Þetta er nákvæmlega það sem ákveðinn hópur þjóðarinnar vill heyra. Hetjur gærdagsins, þríeykið okkar, reynir að benda á það að erlendir ferðamenn séu ekki mesti áhættuþátturinn en það er eins og tala við vegginn. Hagfræðingarnir eru búnir að reikna þetta út og þá er þetta bara svona. Og svo kemur ákallið um að stjórnmálamenn stígi fram, axli ábyrgð og hætti að fela sig á bak við sérfræðinga. Reyndar frá sama fólki og fannst fyrir skömmu síðan það besta sem gerðist hér vera án afskipta stjórnmálamanna.

Einhvern tímann las ég grein um sálfræðipróf sem var lagt fyrir hóp af fólki. Það sat lengi yfir prófinu og barðist við að finna réttu svörin, bara til að komast að því að prófið var algjört aukaatriði og tilgangurinn var að rannsaka hegðun fólks við mikið álag og stress.

Mér finnst stundum eins og þessi faraldur, sem nú gengur yfir, gæti verið rannsókn á hegðun þjóðarinnar og hvernig hún bregst við undir álagi. Nánast eins og þetta sé eitt risastórt samfélagslegt próf sem hafi verið lagt fyrir okkur og við séum öll að kolfalla.

Það er svo auðvelt að skammast og láta eins og maður viti allt best sjálfur en það er í sjálfu sér ekkert galið að staðan sé sú að enginn viti neitt og allir séu að gera sitt besta. En einmitt í þeirri stöðu er mikilvægt að hlusta á þá sem vita þó meira en almenningur og treysta þeim til að finna bestu leiðina í þessari stöðu. Kannski er það eitthvert sambland þessara heilbrigðis- og hagfræðisjónarmiða. Og ég verð að segja að mér finnst það furðulegt að skammast í stjórnmálamönnum fyrir að „fela sig bak við vísindamenn“.

Það sem blasir við er að við eigum miklu betra með að samþykkja rök sem falla vel að hagsmunum okkar og tilfinningalífi. Fólkið í ferðaþjónustunni segir að það sé ekki hægt að loka veiruna úti og fólkið sem er að bugast yfir samkomutakmörkunum vill skella landinu í lás og halda sínu striki. Halda tónleika og spila fótboltaleiki. Og svo er náttúrulega Kári Stefánsson sem er bara alltaf agalega pirraður út af öllu.

Fræðimenn eru þátttakendur í samfélaginu, hafa örugglega ólíka hagsmuni og eru síðast en ekki síst tilfinningaverur eins og við hin. En þeir eru tilfinningaverur sem hafa varið stórum hluta ævi sinnar í að greina hluti með hinni vísindalegu aðferð og eru þess vegna vonandi aðeins betri í að skilja kjarnann frá hisminu en aðrir dauðlegir menn.

Þess vegna vil ég að lokum segja tvennt: Í fyrsta lagi hefur landinu aldrei verið lokað í reynd og vonandi verður það aldrei gert. Hins vegar ættu öll viðbrögð að vera grundvölluð á besta fræðilega mati sem völ er á. Ef í því felst að fela sig á bak við vísindamann held ég að það sé, eins og segir í auglýsingunni, einmitt öruggur staður til að vera á.