Danielle Rodriguez
Danielle Rodriguez
KKÍ hefur ráðið Danielle Rodriguez til starfa sem aðstoðarþjálfara í landsliði kvenna í körfubolta.

KKÍ hefur ráðið Danielle Rodriguez til starfa sem aðstoðarþjálfara í landsliði kvenna í körfubolta. Bætist hún í þjálfarahóp Benedikts Guðmundssonar en honum til aðstoðar er fyrir Halldór Karl Þórsson og nýtur Benedikt því nú liðsinnis tveggja aðstoðarþjálfara.

Sem leikmaður hefur Danielle leikið hér á landi við góðan orðstír; fyrst í þrjú tímabil með Stjörnunni og svo sl. vetur með KR. Öll tímabilin hefur hún verið meðal hæstu leikmanna í helstu tölfræðiþáttum Íslandsmótsins.

Sem þjálfari var hún meðal annars aðstoðarþjálfari U20 liðs kvenna sumarið 2019. Lagði hún skóna á hilluna eftir síðasta tímabil og hefur nú helgað sér þjálfarastörfum. Verður hún sömuleiðis aðstoðarþjálfari mfl. karla í Stjörnunni í vetur.

„KKÍ er mjög ánægt með að hafa fengið Danielle til liðs við sig og njóta krafta hennar og visku í þjálfarateyminu og fyrir komandi verkefni landsliðsins,“ segir í fréttatilkynningu sem Körfuknattleikssamband Íslands sendi frá sér í gær.