Sigurjón Scheving lögreglumaður.
Sigurjón Scheving lögreglumaður.
„Annars er ekki hægt að segja annað, þegar maður lítur til baka yfir ys og þys síldaráranna, en að allt hafi gengið snurðulaust fyrir sig. Menn fengu sér að vísu stundum í staupinu þegar þeir voru í landi, en það voru afar sjaldan nein vandræði.

„Annars er ekki hægt að segja annað, þegar maður lítur til baka yfir ys og þys síldaráranna, en að allt hafi gengið snurðulaust fyrir sig. Menn fengu sér að vísu stundum í staupinu þegar þeir voru í landi, en það voru afar sjaldan nein vandræði.“

Þetta sagði Sigurjón Scheving, eini lögreglumaðurinn á Reyðarfirði, í þættinum „Blaðamenn Morgunblaðsins á ferð um landið“ á þessum degi 1970. Í samtalinu kom fram að fjör síldaráranna væri úti en þegar mest var voru yfir 100 bátar í höfn í einu.

Sigurjón var beðinn um að rifja upp sögur frá þessum líflega tíma og kom þá þessi um hávaða að næturlagi:

„Ég fór að aðgæta þetta og sá að nokkuð frá húsinu voru um 10 menn sem áttu greinilega í útistöðum hver við annan. Mér var um og ó að fara að skipta mér af þessu, en lét mig þó hafa það. Reyndust þá mennirnir vera skipsfélagar sem höfðu orðið ósáttir. Bað ég þá að hafa nokkru lægra, og ef þeir þyrftu að gera einhver mál upp sín á milli þá væri ágætt að þeir færðu sig dálítið neðar í götuna, þar sem fólk væri farið að sofa. Vék einn þeirra félaga sér þá að mér og var sá stór og mikill rumur. Lýsti sá því yfir, að það mundi auðvelt að berja mig. Ég sagði honum að það væri sennilega ekkert gaman að slá mig, því sennilega lægi ég strax. Honum fannst þetta nú ekki sem verst röksemd og fórum við að ræða málið í bróðerni. Endaði þetta með því að við gengum allir niður á bryggjuna og þá sagði sá er hafði áhuga á að berja mig, að sennilega væri ég ágæt lögga og ég skyldi bara kalla á sig, ef ég þyrfti á aðstoð að halda í framtíðinni. Til þess kom nú ekki, en ég býst við því að þessi ágæti maður hefði staðið við orð sín.“