[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Of mikið nöldur viðgengst á samfélagsmiðlum um málfar náungans. Ég hef lært það á langri kennaraævi að málfarsnöldur skemmtir einungis skrattanum.

Of mikið nöldur viðgengst á samfélagsmiðlum um málfar náungans. Ég hef lært það á langri kennaraævi að málfarsnöldur skemmtir einungis skrattanum. Nöldurseggirnir hafa gleypt í sig allar hugsanlegar beygingareglur og undantekningar á endalausri skólagöngu, en þá vantar kannski það sem máli skiptir: sálina og safann sem leynist svo oft í máli fólks sem aldrei hefur stigið fæti inn fyrir dyr menntaskólans, hvað þá háskólans. Mér kom þetta í hug þegar ég var handlangari iðnaðarmanna á dögunum. Þessir menn voru fullir af sögum, hikstuðu aldrei, sögðu aldrei „héddna“, „þaddna“ eða beisikklí. Allt var bara eðlilegt og áreynslulaust.

Þessi frjálslegi, óþvingaði talsmáti gerir gæfumuninn, ekki það hvort beyging, fall eða háttur er alltaf samkvæmt „bókinni“.

Við þurfum að skipta um kúrs, fá unga fólkið til að njóta þess að læra íslensku. Foreldrar og kennarar eru hér í lykilstöðu sem fyrr. Þeir þurfa að hvetja ungmennin til að segja frá, skiptast á góðum sögum, hlusta á góða sögumenn (því að þeir eru víða í kringum okkur), ræða við afa og ömmu, hlusta á upplestur og lesa sem mest til að „heyja sér orðfjöld“. Og: skrifa dagbók! Í þessu sambandi bendi ég á að kennarar þurfa ekki að fara yfir allt sem nemendur skrifa. Miklu fremur að taka „stikkprufur“ og ræða tiltekin atriði sem skipta máli í stíl og framsetningu.

Æ já, það vatnar gleðina í málfarsumræðuna. Vörpum húmorsleysinu, agginu og nagginu út í hafsauga.

En auðvitað verðum við að takast á við ýmsa vágesti – bara ekki með gamla nöldrinu og hneyksluninni.

Ungur maður í útiskýli : „Mér finnst nauðsynlegt að sósíalæsa í laugunum áður en ég fer í vinnuna.“ Þessi setning gefur okkur tilvalið tækifæri til umræðu, ekki bara um betra orðalag (t.d. blanda geði ) heldur einnig um það hvernig við viljum sjá íslenskuna þróast á næstu árum.

Kennari (óvænt í miðri málfræðistund): „Hvað gerir hestamaðurinn sem dettur af baki?“

Þögn .

Kennarinn : „Hann fer afturábak.“

Svo er eitt sem ég trúi að geti skipt sköpum: Að unga (og eldra) fólkið tali íslensku (en ekki ensku) við innflytjendur og aðstoði þá við íslenskunámið. Það hefðu allir (hér vilja sumir segja öll ) svo gott af þessu, bæði við og þeir. Við gætum t.d. útskýrt fyrir þeim orðaleikinn um knapann sem fór „afturábak“.

Þökk sé Ríkisútvarpinu fyrir að hafa fengið Arnar Jónsson til að lesa Sjálfstætt fólk . Og þökk sé Morgunblaðinu fyrir Vísnahornið hans Halldórs Blöndal. Á laugardögum er vísnagáta Guðmundar Arnfinnssonar þar fastur liður, skemmtilegt fjölskyldu- og skólaverkefni að glíma við. Svör við gátunni birtast svo viku síðar í bundnu máli. Malid.is hjálpar okkur að finna lausnina!

Og loks dæmi um hina nýju íslensku: „Öll vilja elli bíða en ekkert hennar meinsemd líða.“

Baldur Hafstað hafstad.baldur@gmail.com

Höf.: Baldur Hafstað hafstad.baldur@gmail.com