Varðskipin Það sem af er árinu 2020 hafa Þór og Týr siglt þrisvar til Færeyja til að taka olíu. Með þessu sparast töluverðir fjármunir, segir Gæslan.
Varðskipin Það sem af er árinu 2020 hafa Þór og Týr siglt þrisvar til Færeyja til að taka olíu. Með þessu sparast töluverðir fjármunir, segir Gæslan. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Þegar varðskipið Týr fór til eftirlitsstarfa í Síldarsmugunni undir lok síðasta mánaðar var komið við í Þórshöfn í Færeyjum og rúmlega 141 þúsund lítrar af skipagasolíu keyptir fyrir 57.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Þegar varðskipið Týr fór til eftirlitsstarfa í Síldarsmugunni undir lok síðasta mánaðar var komið við í Þórshöfn í Færeyjum og rúmlega 141 þúsund lítrar af skipagasolíu keyptir fyrir 57.349 Bandaríkjadali, sem samsvarar um 7,8 milljónum króna. Þetta kemur fram í svari Ásgeirs Erlendssonar upplýsingafulltrúa við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Skipagasolía er talsvert ódýrari í Færeyjum en á Íslandi og því hefur Landhelgisgæslan gripið til þess ráðs að láta varðskipin taka olíu í Færeyjum þegar þau eiga leið um hafsvæðið við eyjarnar.

Landhelgisgæslan hefur alþjóðlegum eftirlitsskyldum að gegna á hafsvæðinu nálægt Færeyjum sem aðili að Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðiráðinu. „Þegar varðskip Landhelgisgæslunnar hafa verið við eftirlitsstörf djúpt austur af landinu eða við æfingar með dönsku varðskipunum hafa íslensku varðskipin gjarnan tekið olíu í Færeyjum enda sparast með því töluverðir fjármunir sem hægt er að nýta til að fjölga úthaldsdögum varðskipanna og sinna öðrum lögbundnum hlutverkum,“ segir Ásgeir Erlendsson.

Gæslan gætir ráðdeildar

Sú stefna hafi verið mörkuð hjá Landhelgisgæslunni að gæta skuli ráðdeildar og aðhalds í rekstrinum og því hafa skip Landhelgisgæslunnar keypt olíu í Færeyjum frá aldamótum samhliða öðrum verkefnum í austurhluta lögsögunnar.

Á þessu ári hafa varðskip Landhelgisgæslunnar þrívegis keypt olíu í Þórshöfn. Týr tvisvar (júlí og mars) og Þór einu sinni í febrúar.

„Þá er rétt að geta þess að í bréfi sem sent var Landhelgisgæslunni árið 2018 kemur fram það mat Tollstjóra að olía í olíutönkum skipa sem koma til Íslands frá útlöndum sé hluti af fylgifé farsins og af þeim sökum undanþegið gjaldskyldu á grundvelli a-liðar 1. tl 1. mgr. 6. gr tollalaga nr. 88/2005,“ bætir Ásgeir við.

Í mars 2017 svaraði Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, á Alþingi fyrirspurn frá Gunnari I. Guðmundssyni, varaþingmanni Pírata, um úthaldsdaga Landhelgisgæslunnar. Þar kom fram að Landhelgisgæslan setti olíu á varðskipin í 32 skipti frá 1. janúar 2013 til 24. febrúar 2017. Hluti olíu sem keypt var í útlöndum var vegna erlendra verkefna, t.d. við landamæragæslu í Miðjarðarhafi. Oftast var olía keypt í Færeyjum eða í 14 skipti á tímabilinu. Sjö sinnum var tekin olía á Möltu, fjórum sinnum á Spáni, fjórum sinnum á Íslandi og þrisvar sinnum á Ítalíu.

Meðalverðið á olíulítranum á Íslandi var 91,15 kr., á Spáni var meðalverðið 81,17 kr., í Færeyjum var það 72,08 kr., á Möltu var það 69,5 kr. og á Ítalíu 68,7 kr. hver lítri.

Þegar olíukaup Landhelgisgæslunnar komu til umræðu á árinu 2017 leitaði Morgunblaðið skýringa hjá Jóni Ólafi Halldórssyni forstjóra Olís. Skýringin var sú að sögn Jóns, að reglurnar eru þær að ef skip tekur olíu í einu landi og næsta viðkomuhöfn er í öðru landi borgar viðkomandi útgerð hvorki kolefnagjald né virðisaukaskatt.

Jón tók tilbúið dæmi. Ef grunnverðið er 60 krónur fyrir lítrann á Íslandi og Færeyjum og Gæslan væri að taka olíu á varðskipin hér þyrfti hún að borga kolefnagjald sem er 6,30 krónur, 76 aura í flutningsjöfnunargjald og svo kemur virðisaukaskattur ofan á sem er 16 krónur. Þannig að hér á Íslandi bætast við 22-23 krónur og verðið væri því komið í 82-83 krónur lítrinn.

Þetta væri meðal annars ástæðan fyrir því að íslenskar kaupskipaútgerðir taka stóran hluta eldsneytis í erlendum höfnum.

Olíukaup í Færeyjum
» Týr – júlí 2020, 141.790 lítrar af eldsneyti.
» Týr – mars 2020, 157.887 lítrar af eldsneyti og 2.200 lítrar af smurolíu.
» Þór – febrúar 2020, 800.021 lítri af eldsneyti og 6.000 lítrar af smurolíu.
» Týr – september 2019, 126.088 lítrar af eldsneyti og 2.000 lítrar af smurolíu.
» Týr – maí 2019, 152.154 lítrar af eldsneyti
» Þór – maí 2019, 609.490 lítrar af eldsneyti.