Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Salmonellusýkingum í eldi kjúklinga og svína og sláturhópum fjölgaði mjög á síðasta ári og hefur sú þróun haldið áfram í ár. Færst hefur í vöxt að Matvælastofnun hafi þurft að innkalla matvæli, og þá meira innfluttar vörur en þær sem framleiddar eru hér.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Salmonellusýkingum í eldi kjúklinga og svína og sláturhópum fjölgaði mjög á síðasta ári og hefur sú þróun haldið áfram í ár. Færst hefur í vöxt að Matvælastofnun hafi þurft að innkalla matvæli, og þá meira innfluttar vörur en þær sem framleiddar eru hér.

Tíðni salmonellusýkingar í sláturhópum kjúklinga var 1,2% árið 2019 en hafði verið 0,1% þrjú árin þar á undan, samkvæmt upplýsingum MAST. Tíðni í kjúklingaeldi var sömuleiðis 1,2% á síðasta ári en hafði verið vel undir 1% þrjú ár þar á undan. Það sem af er þessu ári hefur tilvikum heldur fjölgað.

Einnig sást fjölgun salmonellusýkinga í stroksýnum við slátrun svína, eða úr 1,1% 2018 í 3,4% árið 2019. Það sem af er þessu ári er tíðnin svipuð og á síðasta ári. Vigdís Tryggvadóttir, sérgreinadýralæknir hjá MAST, tekur fram að ekki hafi orðið sambærileg fjölgun tilfella í fólki.

Mikið eftirlit á búum

Sýni eru tekin í eldi kjúklinga og aftur við slátrun hjá hverjum eldishópi. Ef jákvætt sýni greinist í eldi er ekki heimilt að setja afurðir þess hóps á markað og honum því fargað. Ef jákvætt sýni greinist við slátrun eru allar afurðir þess hóps innkallaðar ef þær eru komnar á markað. Vigdís segir að fyrirtækjum sé heimilt að hitameðhöndla innkölluðu afurðirnar og setja aftur á markað. Kjúklingar úr sjö sláturhópum hafa verið innkallaðir úr verslunum það sem af er ári og tíu voru innkallaðir á síðasta ári. Á árunum þar á undan var yfirleitt ekki tilkynnt um nema eina innköllun á ári.

Eftirlit með svínum er öðruvísi. Fylgst er með mótefnum í kjötsafasýnum sem tekin eru við slátrun. Þannig sést hvort og þá hversu mikið smitálagið er á svínabúinu. Einnig eru tekin stroksýni af handahófi af svínaskrokkum í hverjum sláturhópi. Ef mótefnamælingar gefa tilefni til eru tekin sýni af öllum skrokkum og beðið með að setja kjötið á markað þar til niðurstöður liggja fyrir. Svínakjöt var innkallað af markaði einu sinni á síðasta ári.

Spurð um uppruna sýkinganna segir Vigdís að í langflestum tilfellum sé ekki um nýsmit að ræða. Á mörgum alifugla- og svínabúum er salmonella í umhverfinu og geti blossað upp við ákveðnar aðstæður. Líklegast hafi flestar salmonellutegundirnar borist inn á búin fyrir nokkrum árum með fóðri eða fóðurhráefnum. Hún segir að þegar salmonella hefur greinst á búi geti verið mjög erfitt að losna við hana fyrir fullt og allt, hún geti verið lífseig í umhverfi, en til séu dæmi um að það hafi tekist.

Aukninguna í fyrra og það sem af er þessu ári má að mestu rekja til kjúklingaeldis á tveimur búum, annars vegar í eigu Reykjagarðs og hins vegar í eigu Matfugls. Samkvæmt upplýsingum Mast kom þó upp nýtt smit í ágúst á öðru búi hjá Reykjagarði og er unnið að faraldursfræðilegri rannsókn til að reyna að finna upprunann. Smit í afurðum og innköllun afurða af markaði hafa einnig verið hjá þessum tveimur fyrirtækjum.

Á sama tímabili hafa greinst jákvæð stroksýni og/eða sést hækkun á mótefnastuðli vegna salmonellusmits á sjö svínabúum í eigu þriggja fyrirtækja, Stjörnugríss, Síldar og fisks og Höndlunar.

Rangar merkingar

Matvæli voru innkölluð að kröfu Matvælastofnunar 41 sinni á árinu 2019. Árið áður voru 37 innkallanir og það sem af er þessu ári hefur Mast krafist innköllunar á 24 vörum. Hafa mun fleiri vörur verið innkallaðar á þessum árum en á árunum á undan, eins og sést á línuriti hér að ofan.

Herdís M. Guðjónsdóttir, sérfræðingur á markaðsstofu Matvælastofnunar, segir að rangar eða of litlar merkingar séu algeng ástæða fyrir innköllun. Nefnir hún að óþolsvaldar séu ekki taldir upp í merkingum á umbúðum og merkingar séu ekki á tungumáli sem flestir Íslendingar skilja. „Svo erum við með í viðvörunarkerfi Evrópu, vöktum það. Það kemur heilmikið upp í tengslum við það.“