Drottning Elísabet og Fillipus á yngri árum.
Drottning Elísabet og Fillipus á yngri árum. — Ljósmynd/Netflix
Ljósvaki hefur verið unnandi línulegrar dagskrár í sjónvarpi og látið sér fátt um finnast þó að vika líði á milli áhorfs á sjónvarpsþátt, jafnvel þótt um æsilega spennu og dramatík sé að ræða.

Ljósvaki hefur verið unnandi línulegrar dagskrár í sjónvarpi og látið sér fátt um finnast þó að vika líði á milli áhorfs á sjónvarpsþátt, jafnvel þótt um æsilega spennu og dramatík sé að ræða. Að bíða í viku hefur ekki þótt tiltökumál, hægt að gera ýmislegt annað þess á milli og geta hlakkað til framvindu næsta þáttar.

Nú hafa hins vegar þau stórtíðindi gerst að Netflex hefur hafið innreið á heimilið. Það var eiginlega hugsað, svona til að byrja með, til að geta horft á eina umtalaða þáttaröð, The Crown, um bresku konungsfjölskylduna.

Ætlunin var að taka einn þátt í einu í rólegheitum en skyndilega var Ljósvaki farinn að stunda hámhorf, eða gleypigláp eins og einhverjir hafa orðað það. Þessi hegðun er ekki beint heilsusamleg. Varla er staðið upp úr sófanum tímunum saman, ekki farið í golf á meðan, eða út að ganga, og tæpast að svarað sé í síma nema númerið sé kunnuglegt. En það verður ekki af Netflix tekið að menn og konur þar innanborðs hafa búið til magnað sjónvarpsefni um konungsfjölskylduna, vel gerða og leikna þætti. Nú verður keppst við að klára þrjár þáttaraðir áður en sú fjórða og nýjasta fer í loftið í nóvember.

Samkvæmt nýjustu fregnum er þegar búið að kortleggja fimmtu og sjöttu þáttaröðina af The Crown þannig að Ljósvaki dagsins verður vart ínáanlegur næstu mánuði og ár.

Björn Jóhann Björnsson

Höf.: Björn Jóhann Björnsson