Hjónin Moorthy og Jothimani hafa fært Akureyringum og ferðamönnum Indland á diski í áraraðir.
Hjónin Moorthy og Jothimani hafa fært Akureyringum og ferðamönnum Indland á diski í áraraðir. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ilmandi lykt af indverskum mat leggur út á Ráðhústorg Akureyrar en þar má finna Indian Curry House. Sathiya Moorthy Muthuvel og kona hans Jothimani elda mat frá ýmsum svæðum Indlands. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

M oorthy, eins og hann er kallaður á Íslandi, er frá Suður-Indlandi. Hann hefur búið hér í 22 ár en hingað kom hann ungur maður í ævintýraleit, þá 26 ára gamall.

Sá í fyrsta sinn snjó

„Ég elska Ísland. Áður en ég kom hingað vann ég á fimm stjörnu hóteli á Suður-Indlandi. Ég er lærður kokkur,“ segir hann og segist hafa komið hingað fyrir tilstilli vinar síns.

„Vinur minn var á Íslandi og bauð mér vinnu þannig að ég sló til. Það var frábært að koma hingað, ungur og ókvæntur. Ég sá þá í fyrsta sinn á ævinni snjó,“ segir Moorthy sem segist aldrei hafa ferðast áður en hann kom til Íslands.

„Ég kom svo einhvern tímann í heimsókn til Akureyrar og féll fyrir bænum og hef verið hér síðan, en ég bjó fyrstu sjö árin í Reykjavík.“

Til Indlands í konuleit

Moorthy fer árlega heim til Indlands að heimsækja fjölskylduna og í eitt skipti kom hann til baka með eiginkonu.

„Ég fór til Indlands þegar ég var 32 ára til að finna mér konu,“ segir hann og hlær.

„Foreldrar mínir fundu konu fyrir mig og við hittumst nokkrum sinnum áður en við giftumst. Fjölskyldur okkar þekkjast. Jothimani var alveg til í að flytja til Íslands. Það var líka í fyrsta skipti sem hún fór út fyrir landsteinana. Við komum svo beint til Akureyrar og hún vinnur með mér hér á veitingastaðnum.“

Það var svo á því herrans góðærisári 2007 að Moorthy og Jothimani ákveða að opna indverskan „take-away“-stað í Hafnarstræti. Fyrir tveimur árum fluttu þau sig um set og opnuðu veitingastaðinn Indian Curry House sem stendur við Ráðhústorg.

„Maturinn hér er blanda af mat frá Suður- og Norður-Indlandi. Mér finnst tandoori-lambið best,“ segir hann og segir Íslendinga mjög hrifna af matnum.

„Við notum mikið cumin, chilli og kóríanderkrydd,“ segir Moorthy og segist sjálfur flytja inn kryddin beint frá Indlandi.

„Við kaupum alltaf ný og fersk krydd í hvert sinn sem við förum til Indlands og komum með þau heim í ferðatöskum. Við komum heim með tuttugu, þrjátíu kíló í hvert sinn,“ segir hann.

„Mamma og pabbi hjálpa okkur að þurrka kryddin,“ segir hann og segir foreldra sína ekki hafa komið til Íslands því þeim finnist of kalt hér.

„Mér finnst ekki of kalt hér. Á Indlandi er of heitt; það getur farið í 40-45 gráður,“ segir hann.

Hjónin eiga þrjú börn, fjórtán, tíu og átta ára, og er töluð tamílska á heimilinu. Fyrstu tvö börnin bera indversk nöfn en sú yngsta heitir Svanhildur.

„Það er bara svo fallegt nafn.“

Ég elska Akureyri

Jothimani birtist inn um dyrnar og er drifin í viðtal.

„Ég kom hingað árið 2005 og ég elska Akureyri. Við höfum kynnst mörgu fólki hér. Ég vinn með Moorthy og er líka kokkur,“ segir hún og segist hafa lært af ellefu ára reynslu í eldhúsinu á veitingastað þeirra hjóna.

„Hún er mjög góður kokkur,“ skýtur

Moorthy inn í.

„Ég hef haft mikið að gera síðan ég kom; eignast þrjú börn og svo vinnan,“ segir hún og segist una hag sínum vel á Íslandi.

Lauk-pakoda

4 laukar

saxað kóríanderlauf

2 stk. karrýlauf, söxuð

1 hvítlauksrif

½ grænt chilli

1 tsk. fennelfræ

salt

1 tsk. cumin-krydd

1 tsk. chilliduft

2 dl Besan-hveiti (gram flour sem er til í Nettó)

2-3 msk. vatn

olía til djúpsteikingar

Skerið lauk í þunna strimla.

Saxið kóríander, karrýlauf, fennel, hvítlauk og chilli og blandið saman við laukinn.

Kryddið með salti, cumin, turmerik og chillidufti. Blandið öllu vel saman með höndunum.

Setjið hveitið í skál, hellið vatninu saman við, það þarf alls ekki mikið og deigið má ekki vera of blautt. Veltið lauknum upp úr deiginu og búið til litlar kökur.

Setjið kökurnar út í heita olíu og steikið í 3-4 mínútur eða þar til kökurnar eru brúnar. Þetta tekur smá stund og það er ágætt að snúa kökunum við nokkrum sinnum og gætið þess að snúa þeim við varlega, þær eru svolítið viðkvæmar.

Þerrið á eldhúspappír og kryddið með salti.

Berið strax fram.

Tikka Masala

Fyrir 5-7 manns

1 kg kjúklingalundir

Kjúklingamarínering

½ bolli hrein jógúrt (125 g)

2 msk. sítrónusafi

6 hvítlauksgeirar saxaðir

1 msk. engifer saxaður

2 tsk. salt

2 tsk. malað cumin

2 tsk. garam masala

2 tsk. paprikuduft

Sósa

3 msk. olía

1 stór laukur, smátt saxaður

2 msk. saxað engifer

8 hvítlauksgeirar saxaðir

2 tsk. malað cumin

2 tsk. malað túrmerik

2 tsk. malað kóríander

1 tsk. chilli-duft

1 tsk. garam masala

50 gr. kasjúhnetumauk

1 msk. tómatpúrra

3 stk. ferskir saxaðir tómatar

1 bolli rjómi (150 ml)

¼ bolli fersk kóríanderlauf (10 gr.), til skreytingar

Maríneraðu kjúklinginn í jógúrt, sítrónusafa, hvítlauk, engifer, salti, cumin, garam masala og paprikudufti og hrærið þar til það er vel húðað.

Hyljið og kælið í að minnsta kosti eina klukkustund eða yfir nótt.

Fóðrið háhliða bökunarform eða steikarbakka með smjörpappír.

Setjið maríneruðu kjúklingabitana á bambusteina og í bökunarformið og bakið í um það bil 15 mínútur á 260°C þar til það er aðeins dökkbrúnt á brúnunum.

Á meðan er gott að búa til sósuna.

Hitið olíuna í stórum potti við meðalhita og svissið laukinn, engiferið og hvítlaukinn þar til hann er mjúkur en ekki brúnaður. Bætið cumin, túrmerik, kóríander, paprikudufti, chillidufti og garam masala saman við og hrærið stöðugt í um það bil 30 sekúndur, þar til kryddið er ilmandi. Bætið þá tómatmauki, tómötum og 1¼ bolla af vatni saman við, látið suðuna koma upp og eldið í um það bil fimm mínútur. Bætið nú kasjúhnetumauki við og hellið rjómanum út í.

Takið kjúklinginn af teinunum og bætið við sósuna og eldið í 1-2 mínútur í viðbót. Skreytið með kóríander og berið fram með hrísgrjónum og nanbrauði.

Tandoori-lamb

Fyrir 4

500 gr. lambalundir

Marinering

1 tsk. sítrónusafi

salt

3 hvítlauksgeirar, gróft saxaðir

5 gr. engifer, gróft saxaður

100 ml þykk hrein jógúrt

½ tsk. milt chilliduft

1 tsk. cumin duft

1msk. kóríanderduft

¼ tsk. grófmalað svart piparduft

1 msk. ferskur kóríander, smátt saxaður

1 tsk. túrmerik

1 tsk. jurtaolía

salt eftir smekk

Setjið lambið í skál ásamt sítrónusafa og salti. Blandið vel saman og setjið til hliðar.

Bætið hvítlauk og engifer í blandara saman við skvettu af vatni til að búa til þykkt slétt mauk.

Leggið tréspjótin í bleyti í volgu vatni meðan þið gerið maríneringuna.

Bætið blönduðum hvítlauk og engifermauki saman við restina af maríneringarefnunum í sérstakri skál. Blandið vel saman og setjið kjötbitana í maríneringuna. Látið liggja í í 15-20 mínútur.

Hitið grillið í miðlungs hita. Þræðið lundirnar á tréspjótin. Smyrjið aukamaríneringunni yfir bitana og setjið undir grillið. Grillið í 10-12 mínútur. Smyrjið með smjöri þegar kjötið er hálfeldað. Ef þú ert með tandoori-ofn þarf að grilla lambið á meðalhita í 10 mínútur í eða þar til það er meyrt.

Berið tandoori-lambið fram með raitha eða jógúrt með salti og pipar.

Tandoori-fiskur

Fyrir 4

520 gr. lax skorinn í bita

Marínering

1 tsk. sítrónusafi

3 hvítlauksgeirar, gróft saxaðir

hálfur engiferbiti, gróft saxaður (5 gr.)

1 stór msk. þykk grísk jógúrt

½ tsk. milt chilliduft (mild paprika væri frábært eða kashmiri chilliduft)

1 tsk. cuminduft

1 msk. kóríanderduft

¼ tsk. grófmalað hvítt piparduft

1 msk. ferskur kóríander, smátt saxaður

1 tsk. túrmerikduft

1 tsk. jurtaolía

salt eftir smekk

Setjið fiskinn í skál ásamt sítrónusafa og salti. Blandið vel saman og setjið til hliðar.

Setjið hvítlauk og engifer í blandara ásamt vatnsskvettu til að gera þykkt slétt mauk.

Leggið tréspjótin í bleyti í volgu vatni á meðan þið gerið maríneringuna.

Bætið blönduðum hvítlauk og engifermauki saman við restina af maríneringarefnunum í sér skál. Blandið vel saman og setjið fiskbitana í maríneringuna. Látið liggja í 15-20 mínútur.

Hitið grillið í miðlungs hita. Þræðið fiskinn á tréspjótin. Smyrjið aukamaríneringunni yfir bitana og setjið undir grillið. Grillið í 10-12 mínútur. Smyrjið með smjöri þegar hálfeldað.

Berið Tandoori-fiskinn fram með myntu-chutney eða mango-chutney.