Fortíð Gömlu heimilissímarnir eru löngu horfnir af sjónarsviðinu. Nú á að loka landlínukerfinu þar sem stinga þarf símasnúru með kló í innstungu.
Fortíð Gömlu heimilissímarnir eru löngu horfnir af sjónarsviðinu. Nú á að loka landlínukerfinu þar sem stinga þarf símasnúru með kló í innstungu. — Morgunblaðið/Jóra
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Komið er að endalokum gamla talsímakerfisins þar sem heimasímar voru tengdir í gegnum landlínukerfið um símstöðvar og kopartaugar, svonefnt PSTN-kerfi, sem lokað verður á þessu ári. Síminn vinnur nú við fyrsta áfanga að lokun PSTN-kerfisins vegna aldurs og ástands þess. Er stefnt að því að ljúka fyrsta áfanga 1. október næstkomandi og að allt PSTN-kerfið verði lagt niður á seinasta ársfjórðungi yfirstandandi árs.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Komið er að endalokum gamla talsímakerfisins þar sem heimasímar voru tengdir í gegnum landlínukerfið um símstöðvar og kopartaugar, svonefnt PSTN-kerfi, sem lokað verður á þessu ári. Síminn vinnur nú við fyrsta áfanga að lokun PSTN-kerfisins vegna aldurs og ástands þess. Er stefnt að því að ljúka fyrsta áfanga 1. október næstkomandi og að allt PSTN-kerfið verði lagt niður á seinasta ársfjórðungi yfirstandandi árs.

,,Það hefur verið í vinnslu í alllangan tíma að leggja þetta kerfi niður enda er það orðið tæknilega úrelt, erfitt að fá í það varahluti og kostar mikið að reka það og önnur tækni hefur í raun og veru að miklu leyti tekið við,“ segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar.

Þótt langflestir landsmenn séu í dag með símasamband í gegnum svonefnt Voice over IP-kerfi (VoIP) og stafræna farnetsþjónustu treysta nokkrir bæir í dreifbýli víða á landinu, þar sem ekki hefur verið lagður ljósleiðari, enn á síma- og netsamband um gamla PSTN-kerfið. Verði ekkert að gert missa þessir staðir allt fjarskiptasamband við lokunina. Um er að ræða lögheimili eða fyrirtæki sem eru staðsett fjarri símstöð á viðkomandi landsvæði þar sem löng koparheimtaug gefur ekki kost á stafrænni fjarskiptalausn á borð við VoIP að því er fram kemur í nýju samráðsskjali Póst- og fjarskiptastofnunar.

Að sögn Hrafnkels verða gerðar ráðstafanir til að tryggja að allir þeir staðir sem missa fjarskiptasamband við lokun PSTN fái aðgang að símaþjónustu og netþjónustu. Gæti þá reynt á svokallaða alþjónustu í fjarskiptum sem lög kveða á um að skuli tryggja að öllum landsmönnum standi til boða talsíma- og gagnaflutningsþjónusta á viðráðanlegu verði. Hefur PFS í hyggju að útnefna Neyðarlínuna ohf. sem alþjónustuveitanda fjarskiptatenginga fyrir síma- og netþjónustu í þessum sérstöku tilvikum.

Hrafnkell segir Símann stýra þessu verki enda lokun kerfisins á vegum fyrirtækisins ,,en við erum að reyna að tryggja að enginn sitji eftir þjónustulaus. Það hefur sem betur verið verið lyft grettistaki af hálfu stjórnvalda með verkefninu Ísland ljóstengt þar sem íbúar í strjálbýlinu, aðallega sveitabæir, hafa verið tengdir við ljósleiðara. Þetta verkefni hefur verið í gangi í fjögur ár og því lýkur vonandi í árslok 2021,“ segir hann.

13 staðir missa allt samband

Hvað lokun símans á PSTN-kerfinu varðar segir Hrafnkell að í einstaka tilfellum sé ekki búið að leggja ljósleiðara og að þar sé um örfáa tugi staða að ræða.

Í samráðsskjalinu er farið yfir stöðu þessa verkefnis og þar kemur fram að skv. upplýsingum Símans sé annars vegar um að ræða notendur sem ekki geta tengst fastaneti eftir lokunina og hins vegar notendur sem ekki geta fengið farnetsþjónustu. ,,Í fyrri flokkunum voru 25 staðföng, en í þeim seinni 13,“ segir þar og er þá átt við lögheimili og fyrirtæki með heilsársstarfsemi á einstökum landsvæðum. Skv. seinustu endurskoðun á stöðu þessara mála líti út fyrir að 13 staðir myndu missa allt fjarskiptasamband við lokun PSTN-kerfisins. Í dag sé ekki ljóst hvaða fjarskiptasamband verður í raun til staðar þegar kemur að lokun og líklegt sé að grípa þurfi til sértækra ráðstafana til að koma upp fullnægjandi sambandi með alþjónustu.

Áhrif á allt að 30 notendur

Þeir staðir, heimili eða fyrirtæki í dreifbýlinu, sem myndu að óbreyttu missa allt fjarskiptasamband við lokun PSTN-kerfisins, eru 13 skv. yfirliti í samráðsskjali Póst- og fjarskiptastofnunar.

Þetta eru einn notandi á Króksfjarðarnesi, einn á Oddsstöðum, tveir notendur á Flatnefsstöðum, einn á Tunguhálsi, einn á Stafafelli, fjórir notendur á Mýrum, einn á Djúpavogi og tveir í Fagradal.

Fram kemur að yfirlitið sé ekki endilega tæmandi og fleiri staðir gætu orðið fyrir truflunum eða skertri fjarskiptaþjónustu.

„Fyrstu niðurstöður eru þær að um sé að ræða innan við 30 staðföng í fyrsta áfanga lokunarinnar.“