[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handboltinn Kristófer Kristjánsson kristoferk@mbl.is Selfyssingar gerðu sér lítið fyrir og lögðu Stjörnuna að velli í fyrstu umferð Olísdeildar karla í handknattleik í gærkvöldi, lokatölur 27:26 Selfossi í vil í Garðabænum.

Handboltinn

Kristófer Kristjánsson

kristoferk@mbl.is

Selfyssingar gerðu sér lítið fyrir og lögðu Stjörnuna að velli í fyrstu umferð Olísdeildar karla í handknattleik í gærkvöldi, lokatölur 27:26 Selfossi í vil í Garðabænum.

Skyttan Guðmundur Hólmar Helgason átti sannkallaðan stórleik í liði Selfoss í sínum fyrsta leik eftir að hafa snúið heim úr atvinnumennsku. Hann skoraði tíu mörk úr fjórtán skotum, þrjú úr vítum, en næstu Selfyssingar þar á eftir voru með þrjú mörk. Ólafur Bjarki Ragnarsson skoraði fimm mörk fyrir Stjörnuna en staðan var 15:13 í hálfleik, heimamönnum í vil. Heimamenn fengu tækifæri í tvígang til að jafna metin í lokin en allt kom fyrir ekki og Selfoss vann mikilvægan sigur í upphafi móts.

KA lagði Fram að velli

Tvö lið sem börðust í neðri hluta deildarinnar á síðasta tímabili mættust í gærkvöldi með nokkuð breytta leikmannahópa. KA vann 23:21-sigur á Fram á Akureyri í jöfnum og spennandi leik. Aki Egilsnes var markahæstur, skoraði sex mörk fyrir heimamenn í KA-heimilinu en Ólafur Gústafsson gerði fimm mörk. Hjá Frömurum var Matthías Daðason með fimm mörk, þar af fjögur úr vítaköstum en Andri Már Rúnarsson og Rógvi Christiansen skoruðu báðir fjögur. Staðan var jöfn í hálfleik, 8:8, en heimamenn voru yfir lengst af eftir hlé.

Veturinn í fyrra var KA-mönnum erfiður og voru þeir í 10. sæti deildarinnar með 11 stig eftir 20 leiki þegar tímabilinu var aflýst. Þeir hafa hins vegar spýtt í lófana og voru fyrirferðarmiklir á leikmannamarkaðnum fyrir tímabilið. Stærsti fengurinn, landsliðsmaðurinn Ólafur Gústafsson, skoraði eins og fyrr segir fimm mörk í gær þrátt fyrir að hafa lítið sem ekkert tekið þátt á undirbúningstímabili liðsins vegna meiðsla. Hann mun eflaust reynast mikilvægur fyrir norðanmenn í vetur. Þá var Nicholas Satchwell drjúgur í marki KA, varði 12 skot. Framarar voru sæti ofar á síðustu leiktíð en spila nú undir stjórn Sebastians Alexanderssonar og verða að spila betur í vetur, ætli þeir sér sæti í úrslitakeppninni.