Þann 10. september sl. voru 100 ár liðin frá fæðingu Guðjóns Hólms, hdl. og forstjóra í Reykjavík. Guðjón fæddist að Litla Ási og flutti að Presthúsum og síðar Útkoti.

Þann 10. september sl. voru 100 ár liðin frá fæðingu Guðjóns Hólms, hdl. og forstjóra í Reykjavík. Guðjón fæddist að Litla Ási og flutti að Presthúsum og síðar Útkoti. Fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur og Guðjón fór eftir MR í HÍ þar sem hann lauk embættisprófi í lögfræði árið 1947.

Guðjón kvæntist Guðrúnu Stefánsdóttur og áttu þau sex börn: Jóhann Geir ökukennara, Gunnar sjóntækjafræðing, Stefán Sigurð eldri (sem lést í slysi), Stefán Sigurð yngri, forstjóra, Guðjón Hólm framkvæmdastjóra og og Áslaugu, d. 2011.

Guðjón var afkastamikill á sínum starfsferli og rak eigin lögfræðistofu fram til 1965 þegar hann varð forstjóri umboðs- og heildverslunarinnar John Lindsay hf. Auk þess stofnaði hann og rak verslanirnar Angoru og Vogabúðina í Vogum auk þess að vera framkvæmdastjóri Skemmtigarðsins Tívolí. Hann var forstjóri Reykhússins hf. frá 1959 til 1979. Ótalin er stjórnarformennska í mörgum fyrirtækjum.

Guðjón var fyrsti formaður Gigtarfélags Íslands og gegndi því embætti til 1980 og varð heiðursfélagi árið 1990. Guðjón var sæmdur gullmerki Félags íslenskra stórkaupmanna og fékk gullmerki Gigtarfélags Íslands árið 1999.