Hannes Haraldsson fæddist 7. ágúst 1949. Hann lést 1. september 2020.

Útför Hannesar fór fram 11. september 2020.

Látinn er Hannes Haraldsson, fæddur 7. ágúst 1949.

Fátt er erfiðara en kveðja ástvini eða sína nánustu í hinsta sinn.

Þá fyrst verður okkur ljóst hversu mjög við söknum þeirra og að við hefðum óskað þess að eiga enn oftar samvistir með þeim, njóta með þeim hamingju, veita og þiggja huggun, eiga fleiri stundir gleði og gráts. Líf er snautt nema því sé deilt með öðrum.

Þegar aldurinn færist yfir verður okkur auðveldara að skilja að dauðinn verður ekki umflúinn og hann getur verið velkominn, þegar kvölin ein er framundan.

Hannes barðist við kvalafull veikindi sín af æðruleysi og bugaðist aldrei, hélt lífinu til streitu þar til lengra varð ekki komist. Hann kvartaði ekki, hélt reisn sinni og kvaddi sitt fólk áður en hann gekk til sængur í hinsta sinn og óminnið færðist yfir. Blessuð sé minning hans.

Hannes var duglegur maður, vinnusamur og verklaginn, hjálpsamur, greiðvikinn og drengur góður.

Þar sem hann lagði til starfskrafta sína munaði um hans framlag.

Hann gekk ungur í reglu frímúrara og sinnti félagsstarfinu þar af kostgæfni, vandvirkni og trúmennsku.

Hann kvæntist snemma, eignaðist stóra fjölskyldu sem honum var mjög annt um og var goldið í sömu mynt. Hann átti eldri bróður og yngri systur sem bæði eru á lífi.

Fjölskyldu Hannesar og aðstandendum öðrum vottum við hjartanlega samúð okkar.

Einar Rafn, Freyja, Helga Björg og Hjörtur.

„Örlítil arða af sannri vináttu vegur þyngra en heilt hlass af vegsemd,“ segir í góðri bók.

Við kynntumst í blóma lífsins fern hjón sem bjuggum í sama raðhúsi við Akurgerði og bundumst traustum vinaböndum sem hafa haldið í áratugi. Við höfum hist reglulega, borðað og ferðast saman. Síðasta ferð ferðaklúbbsins okkar var farin um miðjan júlí sl., fimm daga ferð um Austurland þar sem við áttum að vanda góðar samverustundir. Nú hefur einn úr hópnum, Hannes, verið kallaður á æðra tilverustig eftir baráttu við krabbamein. Við hin sitjum eftir með mikinn söknuð en margar góðar minningar. Hannes kom til dyranna eins og hann var klæddur, stór maður, broshýr, laghentur og úrræðagóður.

Hann var sjálfkjörinn bílstjóri í ferðum okkar innan- og utanlands og alltaf tilbúinn að leggja lið ef eitthvað þurfti að laga eða bæta. Fjölskyldan er stór og vinirnir margir og oft hringdi síminn þar sem beðið var um aðstoð eða ráð við margs konar verk, stór sem smá.

Sem dæmi má nefna að hann lagði starfsfólki SAK lið er bilun var í dælu þegar hlúð var að honum þar.

Að leiðarlokum þökkum við Hannesi samfylgdina, allar góðu stundirnar og ómetanlega vináttu gegnum tíðina. Elsku Guðrún. Þér og fjölskyldunni vottum við okkar innilegustu samúð.

Rósa og Hörður

Valgerður og Gísli Jón

Rósbjörg og Birgir.