Markahæst Ragnheiður Júlíusdóttir skýtur að marki HK-inga í gærkvöldi. Hún skoraði flest mörk í leiknum, tólf talsins, þar af fimm úr vítum.
Markahæst Ragnheiður Júlíusdóttir skýtur að marki HK-inga í gærkvöldi. Hún skoraði flest mörk í leiknum, tólf talsins, þar af fimm úr vítum. — Morgunblaðið/Eggert
Handboltinn Kristófer Kristjánsson kristoferk@mbl.is Deildarmeistarar Fram mörðu sigur á HK í fyrstu umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í Safamýrinni í gærkvöldi, lokatölur 25:24 í Framhúsinu.

Handboltinn

Kristófer Kristjánsson

kristoferk@mbl.is

Deildarmeistarar Fram mörðu sigur á HK í fyrstu umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í Safamýrinni í gærkvöldi, lokatölur 25:24 í Framhúsinu.

Framkonur voru á toppnum á síðustu leiktíð með fimm stiga forskot á Val þegar tímabilinu var aflýst en þrjár umferðir voru eftir. Þær eru með eitt besta lið deildarinnar en hefja þó keppni í vetur vængbrotnar. Landsliðskonurnar Þórey Rósa Stefánsdóttir og Karen Knútsdóttir eru báðar barnshafandi og verða ekki með framan af vetri og þá eru Karólína Bæhrenz og Hafdís Renötudóttir markvörður meiddar. Það kom því kannski ekki á óvart að Framarar lentu í talsverðum erfiðleikum með HK í gær. Mörk stórskyttunnar Ragnheiðar Júlíusdóttur reyndust að lokum ríða baggamuninn. Hún skoraði 12 mörk, þar af fimm úr vítum, og var langmarkahæst. Fjórir Framarar voru með þrjú mörk hver og hjá gestunum skoraði Díana Krístín Sigmarsdóttir sex mörk.

HK-ingar áttu marga fína leiki í fyrra og sýndu það í gær að þær eru lið sem getur tekið stig af hverjum sem er á góðum degi. Það er þó ekki mikil breidd í liðinu og sömuleiðis vantar lykilmenn í Kópavoginn vegna meiðsla.

Stjarnan sannfærandi

Stjarnan vann sannfærandi 29:21-sigur á FH í upphafleiks deildarinnar fyrr um daginn í TM-höllinni í Garðabæ.

Hin 41 árs gamla Hanna Guðrún Stefánsdóttir fór á kostum fyrir heimakonur og skoraði níu mörk í fyrri hálfleik. Britney Cots var markahæst í liði FH með 11 mörk en munurinn reyndist kannski sá að í liði Stjörnunnar var framlagið meira frá næstu leikmönnum. Helena Rut Örvasdóttir skoraði sex mörk og Anna Karen Hansdóttir skoraði fimm. Hjá Stjörnunni var Emilía Ósk Steinarsdóttir næstmarkahæst með fjögur mörk en enginn annar leikmaður skoraði meira en eitt.