[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gauti er fæddur í Reykjavík og ólst upp í Hlíðahverfi og er Valsari í húð og hár. Gauti gekk í Hlíðaskóla, Æfinga- og tilraunaskóla Kennaraháskólans og loks Réttarholtsskóla. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1980.

Gauti er fæddur í Reykjavík og ólst upp í Hlíðahverfi og er Valsari í húð og hár. Gauti gekk í Hlíðaskóla, Æfinga- og tilraunaskóla Kennaraháskólans og loks Réttarholtsskóla. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1980. Sama ár og Gauti lauk BA-prófi frá Háskóla Íslands í ensku árið 1987 fékk hann löggildingu sem skjalaþýðandi og dómtúlkur. „Ég ólst upp við þýðingar á heimilinu og ungur sór ég og sárt við lagði að ég myndi hvorki verða þýðandi né kennari, en endaði svo með að verða hvort tveggja.“ Eftir háskólann á Íslandi ákvað Gauti að nema við Edinborgarháskóla þar sem hann lauk meistaraprófi í skoskum bókmenntum 1991. Síðar hélt hann til Þýskalands og lauk doktorsprófi 2001 frá Johannes Gutenberg háskólanum í Mainz/Germersheim.

Áhugi Gauta á Þýskalandi er mikill því í Skotlandi kynntist hann konu sem hann var spenntur fyrir. „Það er svolítið skondið, en ég kynntist konunni minni ekki á skemmtistað eins og margir, heldur í klaustri. Ég fór í ferðalag til hinnar heilögu eyjar Lindisfarne til að sjá klausturrústirnar þar sem fyrsta víkingaárásin átti sér stað árið 793. Þar hitti ég konu sem ég fór að tala við og ég vissi strax eftir samtalið að þessum samræðum væri hreint alls ekki lokið.“ Gauti sá að hann yrði að læra þýskuna betur því menntaskólaþýskan var ekki upp á marga fiska. „Ég fór til Þýskalands og fór strax að tala, en var ekki beysinn til að byrja með. En við Sabine ákváðum að rífast bara á ensku, svo það var alveg ljóst að eitthvað heitt væri undir ef enskan heyrðist á heimilinu. Svo fluttist hún hingað til Íslands með mér og núna getum við rifist eða verið ástfangin á þremur tungumálum.“

Fyrir utan ýmis tilfallandi störf með námi hefur Gauti verið grunnskólakennari á Laugarbakka í Miðfirði, þýðandi frá árinu 1980 og síðan háskólakennari frá árinu 1994 og er núna prófessor í þýðingafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur unnið í banka, skúrað á Landspítalanum, verið eitt sumar á rækju í Húnaflóa, verið verkamaður í Reykjavík og fyrsta starfið var blaðburður.

„Þessi fjölbreytni í störfum var lengi vel séríslenskt fyrirbæri sem mætti hugsanlega skýra með smæð þjóðfélagsins. En núna eru fjölmiðlar eins og Spiegel og Guardian að spá þessu módeli í framtíðinni og að tími þess að stunda eitt starf alla ævina sé liðinn. Það er mikill kostur að hafa þennan sveigjanleika og ég held það hafi hjálpað Íslendingum mikið í gegnum tíðina.“

Gauti minnist þess að þegar hann var strákur hafi kennarar iðulega kennt fyrir hádegi og svo unnið eitthvað annað eftir hádegi og jafnvel bætt við sig kvöldvinnu líka, jafnvel á bar. „Þetta var ekkert endilega út af sárafátækt, heldur voru bara brettar upp ermarnar þegar menn voru að byggja sér sitt draumahús og þótti ekkert tiltökumál þá. Konan mín sagði að í Þýskalandi væri það óhugsandi að kennari ynni á bar, en það gat alveg gerst hér.“

Gauti hefur skrifað greinar í blöð frá níunda áratugnum, en mestmegnis fræðitexta af ýmsu tagi, bækur og greinar. Einnig skrifaði hann og þýddi leiktexta í stúdentaleikhúsi í Þýskalandi og var hluti af því gefinn út. Hann hefur verið bókmenntagagnrýnandi í Víðsjá hjá RÚV frá 2002 og 2011 kom út safn ritdóma hans í bók undir titlinum Viðbrögð úr Víðsjá og kom hún út í þýskri þýðingu árið eftir undir heitinu Ausbrüche und Eindrücke.

„Fyrsta þýðing mín kom út 1980, reyfari þýddur á ritvél. Ég man það ennþá hvernig það var að hamra á pappírinn, prentsvertan og að þurfa að mála yfir villur með tippexinu fræga. Þegar maður fékk tölvu var það algjör bylting,“ segir hann en bætir við „að hugsanlega séu of miklar upplýsingar á netinu og margar misvísandi“.

Á níunda áratugnum þýddi Gauti nokkrar bækur, m.a. eftir dr. Ruth Westheimer og Stephen King, en einnig mikið fyrir Sjónvarpið þangað til hann fór í lengra nám erlendis. „Ég hef þýtt töluvert af ljóðum þýskra skálda sem birtust fyrst í Lesbók Morgunblaðsins og síðar hef ég þýtt tvær bækur eftir ljóðskáldið Manfred Peter Hein, Frá vetri til vetrar og Að jaðri heims. Ég þýddi bókina Laókóon eftir Gotthold Ephraim Lessing í Lærdómsritaröð Bókmenntafélagsins.“ Einnig hefur Gauti þýtt ásamt öðrum bækur í þýðingaritröð Bókmenntafræðistofnunar HÍ eftir Roland Barthes, Paul Virilio og Erich Auerbach.

„Ég hef verið í ritstjórn tímaritsins Jón á Bægisá frá 2003 og einnig um tíma tímarits Hugvísindastofnunar, Ritsins.“ Auk þess hefur hann ritstýrt nokkrum bókum sem komið hafa út hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Bókmenntafræðistofnun og Þýðingasetri Háskóla Íslands.

Gauti hefur verið virkur í félagsstörfum, sem hófst strax í menntaskóla og í HÍ var hann formaður Félags enskunema 1984-5, formaður Félags sjónvarpsþýðenda 1987-1990 og einnig fyrsti formaður Bandalags þýðenda og túlka 2004-2009. Hann hefur verið í stjórn Rithöfundasambands Íslands, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Íbúasamtaka Laugardals og í stjórn Félags löggiltra dómtúlka og skjalaþýðenda. „Frá 2013 hef ég verið í listahópnum Leiðangurinn á Töfrafjallið sem staðið hefur fyrir atburðum og sýningum á Ísafirði, í Hveragerði og Reykjavík.“

Fjölskylda

Eiginkona Gauta er Sabine Leskopf borgarfulltrúi, f. 6.2. 1969. Foreldrar hennar eru Hildegard Leskopf, f. 2.3. 1939, húsmóðir og Franz Leskopf, f. 23.9. 1935, fyrrv. meðferðarfulltrúi. Börn Sabine og Gauta eru Fjóla, f. 1996, listamaður í Berlín, Jakob, f. 2000, nemi og Selma, f. 2003, nemi. Fyrri kona Gauta var Þórkatla Þórisdóttir, f. 9.4. 1951, kennari og félagsráðgjafi. Stjúpbörn Gauta með Þórkötlu eru Ingibjörg Gylfadóttir, f. 1971, lyfjafræðingur í Hafnarfirði og Þórey Ólöf Gylfadóttir, f. 1976, lektor í Reykjavík.

Systkini Gauta eru Þorsteinn, f. 25.2. 1963, flugstjóri í Garðabæ, Kristmann Egill, f. 4.9. 1965, rafvirki í Reykjavík og Eiður Páll Sveinn, f. 24.2. 1968, áætlunarstjóri í Hafnarfirði.

Foreldrar Gauta eru Kristmann Eiðsson, f. 27.5. 1936, kennari og þýðandi, og Kristín Þorsteinsdóttir, f. 13.5. 1938, d. 29.1. 2017, fv. ræstingastjóri.