Diljá Helgadóttir
Diljá Helgadóttir
Eftir Diljá Helgadóttur: "COVID-19faraldurinn og niðursveifla í efnahagslífinu hefur aukið meðvitund aðildarríkja ESB varðandi beinar erlendar fjárfestingar."

Þann 19. mars 2019 tók gildi reglugerð ESB nr. 2019/452 um skimun beinna erlendra fjárfestinga innan sambandsins (e. Foreign Direct Investment Screening Regulation). Reglugerðin setur ramma um skimun aðildarríkjanna á beinni erlendri fjárfestingu á grundvelli öryggis og allsherjarreglu. Það er þó hlutverk hvers og eins aðildarríkis að innleiða skimunaraðferð í sínu ríki. Með reglugerðinni er komið á fót samstarfsaðferðum milli aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar að því er varðar skimun sem gæti haft áhrif á öryggi eða allsherjarreglu. Reglugerðin mun taka gildi þann 11. október nk. og verða aðildarríki ESB að semja löggjöf um skimun erlendra fjárfestinga innan ramma reglugerðarinnar fyrir þann tíma.

Hingað til hefur skimunarreglugerðin aðallega verið nefnd í tengslum við ógnina við að erlendir aðilar eignist evrópskar atvinnugreinar í veitugeiranum og á sviði tækni, t.d. vélfærafræði, netöryggis og gervigreindar, en nú hefur COVID-19-heimsfaraldurinn einnig beint athyglinni að mikilvægum innviðum heilbrigðisþjónustu og framboði á mikilvægum vörum í þeim geira.

Rétt er að benda á að umrædd gerð hefur ekki lagagildi á Íslandi. En ætla má að hún verði tekin til skoðunar hjá EES/EFTA-ríkjunum á grundvelli XXI. viðauka EES-samningsins. Í framhaldinu yrði hún lögð fyrir sameiginlegu EES-nefndina sem tekur ákvörðun um hvort taka eigi gerðina upp í EES-samninginn. Eftir að tilskipunin hefur verið tekin upp í EES-samninginn ber að innleiða hana í landsrétt, sbr. 7. gr. EES-samningsins.

Leiðbeiningar í ljósi COVID-19

COVID-19-faraldurinn og niðursveifla í efnahagslífinu hefur aukið meðvitund aðildarríkja ESB varðandi fjárfestingar í heilbrigðisgeiranum. Með hliðsjón af þessu birti framkvæmdastjórn ESB í mars sl. leiðbeiningar um skimun á beinni erlendri fjárfestingu með sérstaka áherslu á heilbrigðisgeirann.

Leiðbeiningar framkvæmdastjórnarinnar hafa það markmið að tryggja sameiginlega nálgun ESB varðandi erlenda fjárfestingu á tímum COVID-19-faraldursins. Markmið leiðbeininganna er að gæta að hagsmunum fyrirtækja innan ESB og mikilvægra eigna á ýmsum sviðum í heilbrigðisgeiranum; s.s. varðandi læknisfræðilegar rannsóknir, líftækni og innviði, en á sama tíma að grafa ekki undan almennu víðsýni ESB fyrir erlendum fjárfestingum.

Í leiðbeiningunum leggur framkvæmdastjórnin því áherslu á að aðildarríkin beiti öllum tiltækum lagalegum ráðstöfunum til að koma í veg fyrir að eignir og tækni sem skipta máli fyrir lýðheilsu verði yfirtekin með erlendri fjárfestingu.

Þegar þetta er skrifað eru 15 aðildarríki ESB með skimunarkerfi fyrir beinar erlendar fjárfestingar sem miða að því að bregðast á áhrifaríkan hátt við beinum erlendum fjárfestingum. Önnur aðildarríki, þar á meðal Danmörk, eru annaðhvort í því ferli að innleiða eða útfæra nánar skimunarkerfi sín. Utan ESB tóku nýlega gildi innlendar skimunarreglur í Ástralíu þannig að nú verði að skima allar erlendar fjárfestingar – sama hversu lítill hluti fyrirtækisins er keyptur og óháð tilgangi eða tegund viðskipta. Löggjöfin er því afar takmarkandi og þýðir að héðan í frá eru allar beinar erlendar fjárfestingar í áströlskum fyrirtækjum háðar leyfi.

Staða Íslands

Eins og fyrr segir ber að hafa í huga að umræddar reglur hafa ekki verið teknar upp í EES-samninginn. Verður þó að telja að Ísland sé almennt opið fyrir erlendum fjárfestingum að frátöldum takmörkunum í lögum nr. 34/1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Á Íslandi er ekki formlegt skimunarkerfi hvað varðar beinar erlendar fjárfestingar.

Áhugavert verður að fylgjast með viðhorfi íslensku ríkisstjórnarinnar til þess að koma á fót formlegri skimun á beinum erlendum fjárfestingum.

Höfundur er lögfræðingur, LL.M., með framhaldsmenntun í alþjóðlegum viðskiptarétti frá Duke-háskóla í Bandaríkjunum.

Höf.: Diljá Helgadóttur