— Morgunblaðið/Eggert
Hvaða átak er þetta, breytum leiknum? Þetta er átak til þess að hvetja stelpur til að æfa handbolta og halda þeim lengur.
Hvaða átak er þetta, breytum leiknum?

Þetta er átak til þess að hvetja stelpur til að æfa handbolta og halda þeim lengur. Við þurfum að sýna þeim að þær geta átt mikla framtíð í íþróttum; til þess þurfum við að breyta gömlum og úreltum viðhorfum innan íþróttahreyfingarinnar. Þess má geta að í heiminum eru aðeins 4% íþróttaumfjöllunar um konur; restin er um karla.

Hvernig var staðan þegar þú varst stelpa?

Ég hafði alltaf mikinn áhuga á íþróttum en mamma mín þurfti bókstaflega að draga mig á æfingar. Ég hafði engar fyrirmyndir, alla vega ekki neinar sem voru sýnilegar. Ég þekkti enga konu í handbolta og var ekki viss um að ég ætti að verja tíma í þetta ef það væru engir möguleikar í þessu.

En þú hélst áfram?

Já, ég fékk ekki leyfi til þess að hætta; foreldrarnir leyfðu það ekki. En svo komst ég að því hvað þetta var ótrúlega skemmtilegt og gefandi félagslega. Ég gaf þessu séns og er ótrúlega þakklát fyrir það í dag.

Eru ekki fleiri fyrirmyndir úr röðum kvenna í dag?

Jú, við erum klárlega á réttri leið. En það er alltaf þetta ójafnvægi sem við þurfum að vinna í. Svo þarf að breyta hugarfarinu og fá frasana eins og „að væla eins og stelpa“ eða „að kasta eins og stelpa“ út. Ég kasta örugglega fastar en flestir strákar; það hlýtur þá að vera jákvætt að kasta eins og stelpa.

Viltu segja eitthvað að lokun?

Já, ég vil segja að þetta snýst ekki bara um að stelpur fari út í atvinnumennsku í íþróttum, heldur meira að þær komi út í lífið með sterkari sjálfsmynd og að þeim séu allir vegir færir.

Arna Sif Pálsdóttir er landsliðskona í handbolta og spilar með Val. Hún vinnur hjá H:N Markaðssamskiptum, sem unnu herferðina Breytum leiknum fyrir HSÍ.