Eyþór Arnalds
Eyþór Arnalds
Sjálfstæðisflokkurinn hyggst leggja fram tillögu á borgarstjórnarfundi á þriðjudag um að breyting verði gerð á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem heimilar íbúabyggð á Keldum og í Örfirisey. Samhliða því verði ráðist í skipulagningu atvinnulóða á...

Sjálfstæðisflokkurinn hyggst leggja fram tillögu á borgarstjórnarfundi á þriðjudag um að breyting verði gerð á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem heimilar íbúabyggð á Keldum og í Örfirisey. Samhliða því verði ráðist í skipulagningu atvinnulóða á Keldum. Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks, segir í samtali við Morgunblaðið að málið sé mikilvægt fyrir hagsmuni almennings.

Í greinargerð Sjálfstæðisflokks segir að meirihlutinn í borgarstjórn gangi út frá því að hægt sé að koma íbúabyggð sem nemi 4.000 íbúðum á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýrinni. Að mati Sjálfstæðisflokks liggi þó fyrir að ekkert verði byggt í Vatnsmýrinni á næstu 10 til 20 árum enda hafi ekki verið ákveðið hvar annað flugvallarstæði yrði staðsett. Enn fremur sé útlit fyrir að vegna efnahagslægðar í kjölfar heimfaraldursins muni tæplega verða ráðist í framkvæmdir við lagningu nýs flugvallar, framkvæmd sem oddviti Sjálfstæðisflokks segir að muni kosta um 100 milljarða. Að þessu gefnu sé ljóst að gat upp á 4.000 íbúðir sé í húsnæðisáætlun borgarinnar en hún gerir ráð fyrir því að um 1.000 íbúðir verði byggðar á ári til ársins 2040.

Eyþór segir að við þessum bráða húsnæðisskorti megi bregðast með uppbyggingu íbúabyggðar í Örfirisey og á Keldum. Á báðum stöðum sé pláss fyrir rúmlega 2.000 íbúðir. Í Örfirisey verði fyrirhuguð byggð sem muni hafa jákvæð áhrif á umferð innan borgarinnar sökum nálægðar hennar við verslun og þjónustu. Eins og stendur er ekki leyfi til uppbyggingar íbúabyggðar á svæðinu vegna nálægðar við birgðastöð olíufélaganna. Samþykkt var á fundi borgarráðs árið 2019 að umfang hennar yrði minnkað um helming fyrir árið 2025.

Þá segir í tillögu Sjálfstæðisflokks að uppbygging íbúabyggðar á Keldum og ekki síður uppbygging atvinnulóða muni koma á jafnvægi í borginni. Bílaumferð til vesturs muni minnka rísi atvinnuhúsnæði á Keldum. Horfa fulltrúar Sjálfstæðisflokks þá aðallega til þess að stofnanir ríkisins geti flutt starfsemi sína þangað. Flótti stofnana síðustu ár úr borginni sé staðreynd og nefndur er sérstaklega í tillögunni flutningur höfuðstöðva Íslandsbanka, Tryggingastofnunar og Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu til annarra sveitarfélaga.

Mistókst að svara eftirspurn

Eyþór segir í samtali við Morgunblaðið að borginni hafi mistekist að svara eftirspurn. „Uppbygging íbúabyggðar á þessum tveimur svæðum er gríðarlega mikilvæg fyrir almenning. Lagt er upp með í lífskjarasamningnum að tryggð verði húsnæðisuppbygging fyrir alla. Reykjavíkurborg verður að standa við sinn hluta samningsins og byggja fleiri íbúðir,“ segir Eyþór.

Hann bætir við að með hlutdeildarlánum ríkisstjórnarinnar ætli stjórnvöld sér að skapa eftirspurn eftir húsnæði. „Og því verður borgin að vera á tánum og stuðla að því að framboð sé tryggt. Fólksfjölgun í Reykjavík er undir landsmeðaltali og það er einungis vegna þess að ódýrara er að byggja annars staðar. Eðlilega fer fólk þangað þá. Vinstrimeirihlutinn hefur aðallega einbeitt sér að byggingu lúxusíbúða og innleiðingu félagslegra ráðstafana. Við í Sjálfstæðisflokknum viljum frekar huga að almenna markaðnum. Fólk á að geta keypt sér húsnæði á viðráðanlegu verði um alla Reykjavík.“

oddurth@mbl.is