Gunnþórunn Guðný Söebeck Sigurðardóttir fæddist 25. maí 1951 í Krossdal í Kelduhverfi. Hún lést 1. september 2020.

Foreldrar hennar voru Sigríður Þórarinsdóttir og Sigurður Steinþór Söebeck Kristjánsson.

Systkini: Kolbrún Pétursdóttir Kúld, Aðalsteinn Rúnar Gunnarsson, Þórhildur Gunnarsdóttir og Guðrún Gunnarsdótti.

Gunnþórunn giftist Viðari Eiríkssyni 16. febrúar 1969 og eignuðust þau þrjú börn saman: Eyþór, giftur Sigrúnu Björg Víking, hann á tvo drengi af fyrra sambandi, Maríus Þór og Kristinn Örn. Birkir giftur Kristínu Elfu Björnsdóttur, eiga þau saman fjögur börn. Þau eru Bjartey Guðný, Benedikt Viðar, Elísabet Árný og Fanney Bryndís. Sigríður gift Sigurði Þór Einarssyni, eiga þau fjögur börn saman. Þau eru Sonja Björk, Bríet Guðný, Eyþór Marel og Marey Viðja.

Gunnþórunn ólst upp hjá móðurforeldrum sínum til 15 ára aldurs, flutti þá til Húsavíkur og tór saman við Viðar, bjó þar alla tíð síðan. Hún starfaði við afgreiðslustörf en síðustu 20 árin á vinnumarkaði helgaði hún heimili aldraðra, Hvammi.

Útför Gunnþórunnar fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 12. september 2020, klukkan 14.

Gunnþórunn Guðný Sigurðardóttir eða Gugga eins og hún var ævinlega kölluð lést eftir stutt en snörp veikindi. Hún bar sig alltaf vel og ég var í sambandi við hana á Facebook daginn áður en hún dó. Ekki grunaði okkur að svona stutt væri eftir. Gugga var nokkrum árum eldri en við og ólst upp hjá afa og ömmu í Krossdal svo samgangur var mikill. Sem börn litum við mjög upp til hennar og fannst hún svo falleg, ekki ósvipuð Soffíu Loren. Eftir því sem árin liðu varð aldursbilið styttra og vinátta myndaðist. Samband okkar við Guggu var sérstakt og náið eins og um systur væri að ræða.

Við fórum saman í svokallaðar frænkuferðir og voru þær mjög skemmtilegar. Eftirminnileg er ferðin til Suður-Ítalíu þegar við heimsóttum frænku okkar sem þar bjó lengi.

Má segja að það hafi verið hlegið frá morgni til kvölds í þessum ferðum enda Gugga sérlega hláturmild og kát með sinn smitandi, gjallandi hlátur. Það varð allt svo skemmtilegt með Guggu.

Þegar maður heimsótti Guggu fagnaði hún með svo einlægri gleði og væntumþykju að það var alltaf sérstök ánægja að koma til hennar. Jafnvel í sumar þegar það var greinilega af henni dregið þá fagnaði hún okkur af sömu gleði og sömu innlifun og alltaf. Guggu var margt til lista lagt. Hún föndraði og prjónaði mikið og allt lék það í höndunum á henni. Þær eru nokkrar peysurnar sem við frænkur höfum fengið að gjöf frá Guggu og þær vekja hvarvetna athygli og aðdáun.

Gugga og Viddi voru gjarnan nefnd í sömu andrá. Þau kynntust ung og voru samstiga það sem eftir var í einu og öllu. Það átti ekki síst við um umhyggju þeirra gagnvart börnum sínum og barnabörnum. Því var það mikill harmur þegar Viddi greindist með krabbamein árið 2018 sem dró hann til dauða á skömmum tíma. Gugga bar ekki sitt barr eftir það enda kom fljótlega í ljós að hún var sjálf komin með sjúkdóm sem ekki varð við ráðið. Gugga og Viddi unnu mikið saman og höfðu yndi af því að gera fínt í kring um sig enda var Viddi mjög handlaginn og sannkallaður þúsundþjalasmiður. Vann hann m.a. við að gera við reiðhjól Húsvíkinga síðustu árin. Viddi hafði útbúið góða vinnustofu á heimili þeirra, Rauðhóli, sem allt bar þess merki að nostrað hafði verið við hvern hlut bæði að utan og innan.

Guggu verður sárt saknað og tómlegt að koma til Húsavíkur þegar hún er farin.

Blessuð sé minning hennar.

Guðný og Þórdís.