Ég hjó eftir því í markaþætti á Stöð 2 Sport á fimmtudagskvöldið að Hjörvar Hafliðason sagði eitthvað á þá leið að í fótboltanum núorðið væri hægt að gefa gult spjald í nánast öllum tilfellum. Þ.e.a.s ef um brot er að ræða á annað borð.
Ég hjó eftir því í markaþætti á Stöð 2 Sport á fimmtudagskvöldið að Hjörvar Hafliðason sagði eitthvað á þá leið að í fótboltanum núorðið væri hægt að gefa gult spjald í nánast öllum tilfellum. Þ.e.a.s ef um brot er að ræða á annað borð.

Þessu er ég alveg sammála. Ég kann ekki reglurnar utan að og maður veit ekki hvaða skilaboð dómarar fá varðandi áherslur fyrir tímabilið. En upplifunin er svipuð hjá mér eins og hjá Hjörvari. Mér finnst oft erfitt að átta mig á hvort gult spjald hæfi brotinu eða ekki.

Línan var einhvern veginn skýrari áður. Alla vega er það þannig í minningunni. Áhorfendur, þjálfarar og leikmenn kröfðust þess ekki að sjá gula spjaldið fara á loft við smávægileg brot. Þegar maður hefur séð leikmenn fá gult spjald þar sem leikmenn fara öxl í öxl og sá sem er meira veikburða fellur þá er þetta orðið heldur óljóst.

Ef til vill skýrir þetta einnig að einhverju leyti hvers vegna þjálfarar, leikmenn, stjórnarmenn og áhorfendur eru oftar en ekki kvartandi yfir dómgæslu. Menn geta lengi fundið leiðir til að rökstyðja sína skoðun þegar línan er óljós.

Í sumar sá ég leik hjá KR og Víkingi þar sem þrír Víkingar fengu brottvísun. Nokkuð óvenjulegt er að þrír úr sama liðinu séu reknir út af eins og sparkelskir þekkja. Allir stuðningsmenn KR sem ég talaði við sögðu dómarann hafa tekið rétta ákvörðun í öllum tilfellum. Allir stuðningsmenn Víkings sem ég ræddi við sögðu dómarann hafa tekið ranga ákvörðun í öllum tilfellum.

Eftir ansi mörg ár í kringum íþróttirnar þá hefur maður ekki tölu á því hversu oft maður hefur upplifað eftir leiki í boltagreinum sárindi í herbúðum beggja liða yfir því hversu mjög hallaði á liðið í dómgæslunni. Munurinn er sá að hjá liðinu sem vinnur gera menn ekki mál úr því. Tapliðið setur málið á dagskrá. Í hita leiksins er sjónarhorn manna svo þröngt að maður þarf stundum að berjast við hláturinn. En menn geta lengi fundið atvik sem orka tvímælis og velt sér upp úr þeim.