[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég ætla að segja stuttlega frá fjórum bókum sem eru ofarlega í huga mér þessar vikurnar. Byrjum á Braga. Ég las mína fyrstu bók eftir Braga Ólafsson, Staða pundsins , um síðustu jól. Síðan þá er ég búinn að lesa sex aðrar bækur eftir hann.

Ég ætla að segja stuttlega frá fjórum bókum sem eru ofarlega í huga mér þessar vikurnar.

Byrjum á Braga. Ég las mína fyrstu bók eftir Braga Ólafsson, Staða pundsins , um síðustu jól. Síðan þá er ég búinn að lesa sex aðrar bækur eftir hann. Ég heillaðist strax af stílbrögðum og frásagnarmáta Braga og þessum Reykjavíkurheimi sem hann hefur skapað þar sem persónur mismunandi bóka koma fyrir aftur og aftur og verða þannig eins og góðkunningjar manns. Bækur Braga eru algjör yndislestur og ég hef ítrekað staðið mig að því að hætta að lesa bara til að klára ekki bækurnar of fljótt. Eina af þessum bókum get ég kallað mína uppáhaldsbók en það er bókin Handritið að kvikmynd Arnar Featherby og Jóns Magnússonar um uppnámið á veitingahúsinu eftir Jenný Alexon . Leiftrandi snilld út í gegn. Skemmtilegasta bók sem ég hef lesið.

Ég hef mikinn áhuga á fólki og les því oft bækur um áhugaverða einstaklinga. Ég hef verið að glugga í bókina Og svo tjöllum við okkur á rallið: Bókin um Thor þar sem Guðmundur Andri Thorsson minnist föður síns, Thors Vilhjálmssonar. Skemmtileg bók um Thor sem var ansi áhugaverður einstaklingur. Bókin veitir einstaka og persónulega innsýn í líf Thors, bæði í gegnum ritmál og myndmál. Á náttborðinu er líka bókin Billie Holiday: The Musician and the Myth um samnefnda jazzsöngkonu eftir John Szwed. Bókin fjallar um einstaka hæfileika söngkonunnar og framlag hennar til jazztónlistarinnar. Hún fjallar líka um hvernig óhófleg áfengis- og lyfjamisnotkun fór illa með Holiday – líkt og marga jazzmeistara síðustu aldar – en hún lést langt um aldur fram, 44 ára að aldri.

Að lokum verð ég að koma að félagsfræðinni – sem ég starfa við dags daglega – og á yfirleitt hug minn allan. Ég les mikið í kringum félagsfræðina og rýni í flestar bækur með félagsfræðilegum „gleraugum“. Núna síðast hef ég verið að lesa bókina This is Not Just a Painting eftir franska félagsfræðinginn Bernard Lahire sem kom út nýverið. Bókin byggir á umfjöllun um uppruna tiltekins málverks, The Flight Into Egypt eftir franska málarann Nicolas Poussin frá 1657-58, eftir að meint falsað eintak af verkinu kom fram í dagsljósið. Í bókinni gerir Lahire ítarlega greiningu á þeim félagslegu öflum og töfrum sem málverkið framkallar svo úr verður einstaklega upplýsandi úttekt á því hvernig samfélög virka í raun og veru.